Jafnréttisdagar HÍ verða haldnir dagana 20.-24. september nk. annað árið í röð. Líkt og í fyrra verður dagskráin fjölbreytt og verður fjallað um jafnrétti í víðum skilningi og frá mismunandi sjónarhornum. Að dögunum standa fjölmargir aðilar innan Háskólans sem tengjast jafnréttismálum, rannsóknastofnanir, námsbrautir, ýmis hagsmunafélög nemenda, jafnréttisnefndir innan skólans og fleiri aðilar, auk aðila utan skólans.
Opnunarviðburðurinn, 20. september kl. 12, verður umræðufundur um karlmennskuímyndir og gagnkynhneigðarhyggju, þar sem þeir Páll Óskar Hjálmtýsson og Ingólfur V. Gíslason munu flytja erindi. Á Jafnréttisdögum verður einnig fjallað um klámvæðingu, einelti, fjölmenningu og fólksflutninga, kvennabaráttu á Íslandi fyrr og nú og táknmál sem fyrsta tungumál, og margt fleira. Þá verða kvikmyndasýningar í samstarfi við Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (RIFF), leiksýningar og aðrir listviðburðir ásamt fleiru.
Markmiðið með Jafnréttisdögum er að stuðla að fræðslu og aukinni umræðu og skilningi á jafnréttismálum, innan sem utan háskólasamfélagsins, og vinna að því að gera jafnréttismál sýnilegri. Ókeypis er á alla viðburði Jafnréttisdaga (utan kvikmyndasýninga á vegum RIFF) og aðgangur er öllum heimill.
Sjá nánari dagskrá á http://www.hi.is/is/skolinn/jafnrettismal