Kynjaþing Kvenréttindafélags Íslands fór fram laugardaginn 28. maí síðastliðinn í Veröld – Húsi Vigdísar og var vel sótt af fjölda fólks, enda var þingið einstaklega vel heppnað, tilefni til að gráta, hlægja, vera reið og vera snortin. Fjölbreyttir viðburðir fóru fram yfir daginn, en sjá má á viðburðunum að það sem er helst í brennidepli þessa stundina eru málefni þolenda ofbeldis, kvenna á flótta og margþætt mismunun kvenna af erlendum uppruna. 

Kynjaþingið er lýðræðislegur og femínískur vettvangur fyrir almenning. Dagskrá þingsins er skipulögð af félagasamtökum og hópum og hugmyndin er sú að auka samræður milli okkar sem er annt um jafnrétti í heiminum og gefa almenningi tækifæri til að kynnast því helsta sem er að gerast í femíniskri umræðu. Við vonumst til að kynjaþingið auki þekkingu meðal fólks á jafnréttismálum, auki skilning á mismunandi baráttuaðferðum og leiði til aukinnar samvinnu okkar sem vinnum að jafnréttismálum í framtíðinni.

 

Kynjaþing varpar einnig ljósi á það sem er á brennidepli umræðunni um jafnrétti, og í ár var mikil áhersla lögð á margþætta mismunun, konur á flótta og þolendur ofbeldis. Einn viðburður var tileinkaður margþættri mismunun gegn konum á flótta. Á þeim viðburði komu saman konur sem eiga það sameiginlegt að hafa flóttabakgrunn eða þekkja til aðstæðna kvenna á flótta í gegnum aktívisma, fræðimennsku eða störf á þessu sviði. Konur með flóttabakgrunn deildu sögum sínum og lögð var áherslu á að miðla þeim upplýsingum sem konur vilja sjálfar upplýsa almenning um. Þau sem tóku til máls þar voru Diana Aisaami El Musfi, enskukennari frá Sýrlandi, Erna Huld Ibrahimsdóttir, þýðandi, Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur, Andie Sophia Fontaine, blaðamaður hjá Reykjavík Grapevine, Sonja Kovacevic, listakona, kennari og verkefnastjóri hjá Tengja og Helen Benedict, höfundur og prófessor við Columbia University.

UN Women héldu viðburð um innrásina í Úkraínu og mikilvægi kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar. Þar héldu Ingibjörg Sólrún, fyrrverandi utanríkisráðherra og svæðisstjóri UN Women, Árni Matthíasson, netstjóri mbl.is og stjórnarmeðlimur UN Women á Íslandi, erindi, sem og Olena Jadallah, fyrrverandi aðstoðarborgarstjóri í Irpin og doktor í hagfræði sem kom til Íslands sem flóttamaður frá Úkraínu. Olena sýndi myndband frá heimabæ sínum og sagði frá sinni átakanlegu reynslu, ekki síst af móttöku á Íslandi. Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi stýrði umræðum.

Þá stóðu Öfgar fyrir viðburði um þolendur og hina raunverulegu slaufun. Ekki var þurrt auga í salnum þegar þær fóru yfir sögu þeirra kvenna sem hafa verið slaufaðar í íslensku samfélagi í gegnum tíðina og meðferðina sem þær hafa fengið. Þær lögðu áherslu á mismunandi birtingarmyndir ofbeldis sem konur hafa verið beittar í gegnum tíðina. 

Viðburðirnir í ár voru mjög fjölbreyttir. Samtökin ‘78 héldu utan um samtal við hinsegin ungmenni, ASÍ stýrði umræðum við konur af erlendum uppruna á íslandi og þá mismunun sem þær hafa orðið fyrir á vinnumarkaði, Rótin var með umræður um samþættingu kynjasjónarmiða í fíkniefnastefnu og Elísabet Ósk kynnti Urðarbrunn. Þá var líflegt á kaffihúsinu, þar sem verkefnið 1600 niðurfelld nauðgunarmál var með sýningu á kláruðum verkum, Reykjavík Feminist Film Festival seldi muni til styrktar hátíðinni og hægt var að taka þátt í femínísku hannyrðapönki með Sigrúnu Hannyrðapönkara. Við lok þingsins bauð Kvenréttindafélagið upp á veigar í Stúdentakjallaranum þar sem skálað var fyrir jafnrétti. 

Kvenréttindafélagið þakkar öllum þeim sem stóðu fyrir viðburðum á Kynjaþingi og þeim sem mættu, en áætla má að gestir ráðstefnunnar hafi verið um 200 talsins.