Háskólinn á Bifröst hefur birt skýrslu sem gerð var af Rannsóknarsetri vinnuréttar um stöðu kvenna í 120 stærstu fyrirtækjum landsins árið 2008. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 7. – 27. maí sl. og líkt og í fyrra var spurt um stöðu fyrirtækjanna á þeim tímapunkti sem könnunin fór fram. Í ljós kom að konur eru 13% þeirra sem sitja í stjórnum fyrirtækjanna og er það hækkun frá því í fyrra þegar hlutfallið var 8%. Af þeim 120 fyrirtækjum sem tóku þátt í könnuninni í ár eru samtals 13 fyrirtæki með konu sem stjórnarformann, eða 11% stjórnarformanna. Í fyrra var hlutfallið 3%. Þess má geta að engin kona er stjórnarformaður í þeim 11 fyrirtækjum á listanum sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar (OMX). Í 58% fyrirtækjanna reyndist engin kona í stjórn fyrirtækisins.
Skýrsluna má lesa í heild sinni á slóðinni http://www.bifrost.is/Files/Skra_0027995.pdf