Þátttakendur í Femme Empower verkefni Kvenréttindafélagsins og Ungmennaráðið LAUFEY, kynntu í gær kröfur sínar fyrir fullum sal í Hinu Húsinu: KRÖFUR UNGRA KVENNA OG KVÁRA Á ÍSLANDI Á KVENNAÁRI 

Kröfurnar byggja á niðurstöðum umræðna og netkönnunar sem fór fram meðal ungra kvenna og kvára á aldrinum 18 til 30 ára og birtar voru í skýrslu hópsins ásamt kröfunum.

Niðurstöðurnar sýna m.a. að ungar konur og kvár upplifa margs konar misrétti og ofbeldi.

— 44% þeirra hafa upplifað andlegt eða sálrænt ofbeldi
— 33% kynferðisofbeldi
— 31% kynferðislegt áreiti og 75% á stafrænu formi

Almennt ríkir nokkuð vantraust í garð stofnana og samtaka sem hafa það hlutverk að veita þolendum ofbeldis stuðning auk þess sem ungir þolendur vita stundum ekki hvert þau eiga að leita, finnst gerendameðvirkni vera til staðar og refsingar vægar.

— 50% finnst þau ekki eiga sér málsvara í stjórnmálum

— 73% telja sig hafa orðið fyrir launamisrétti á grundvelli kyns
— 79% telja framkomu gagnvart sér mótast af kynjuðum staðalímyndum

— 31% finnst kyn- og jafnréttisfræðsla í skólum var takmörkuð.

 

KRÖFUR ungra kvenna og kvára eru skýrar:

  1. Leggja meiri metnað í að uppræta kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, m.a. í nánum samböndum, umsáturseinelti og gerendameðvirkni, ekki síst þegar börn og ungmenni eiga í hlut.
  2. Tryggja fordómalausa kyn- og jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum frá leikskóla til framhaldsskóla.
  3. Veita skýra upplýsingagjöf til ungs fólks og þolenda ofbeldis um stuðningsúrræði m.a. við að kæra ofbeldi, þ.m.t. á stafrænu formi.
  4. Byggja upp aukið traust í garð stofnana og samtaka sem þolendur geta leitað til um rétt sinn, viðeigandi aðstoð og stuðning.
  5. Efla jafnréttisfræðslu á vinnustöðum og markvissar aðgerðir gegn kynjuðu áreiti í öllum sínum birtingarmyndum
  6. Leggja meiri áherslu á virka hlustun heilbrigðisstarfsfólks innan kynheilbrigðiskerfisins og annarra tengdra stofnana með það að markmiði að skapa traust og umhverfi þar sem ungar konur og kvár sem leita til kerfisins með sín mál, upplifi sig örugg óháð aldri, kyni, félagslegri stöðu, uppruna og öðrum þáttum sem skapa valdamisvægi milli heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga.
  7. Framkvæma notendakannanir meðal ungra kvenna og kvára sem eru skjólstæðingar barnaverndarstofnana eins og Barnahúss og BUGL (Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans).

 

Umræður
Að kynningu lokinni tóku borgarstjórinn í Reykjavík ásamt öðrum kjörnum fulltrúum og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu til máls í umræðum sem og fulltrúar ungra kvenna og kvára, félagasamtaka og framhaldsskóla. Öll voru sammála um að svigrúm væri til að gera betur og mikilvægt væri að koma á móts við kröfurnar.

 

Ungmennaráð Kvenréttindafélagsins – LAUFEY
Ungmennaráðið Laufey var stofnað af þátttakendum í Femme Empower verkefninu sem er styrkt af Evrópusambandinu og Kvenréttindafélagið heldur utan um í samstarfi við fjögur önnur félagasamtök í jafn mörgum löndum.

LAUFEY var stofnað á afmælisdegi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda Kvenréttindafélagsins, þann 27. september og nefnt eftir dóttur hennar. Laufey Valdimarsdóttir var mikill skörungur eins og móðir sín. Hún var m.a. fyrsta konan sem útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík!

Ungmennaráðið er opið öllu ungu fólki óháð kyni á aldrinum 15 til 35 ára sem vill ræða og grípa til aðgerða gegn misrétti í þágu jafnréttis, kven- og mannréttinda!

Aðrar fréttir