
Erindi flutt fyrir nýkjörnar þingkonur og ráðherra á 118 ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, 27. janúar 2025
eftir Sigríði Dúnu Kristmundsóttur
Blessaðar allar
Til hamingju með kjörið þingkonur og með ráðherrastarfið ráðherrar. Og til hamingju KRFÍ með afmælið í dag, 118 ár. Það er gott úthald og ber vitni þeirri þrautsegju sem einkennt hefur íslenska kvennabaráttu frá upphafi hennar fyrir 150 árum.
Kvennabaráttan og karlveldið
Ætli konurnar sem stofnuðu KRFÍ árið 1907 til þess að berjast fyrir kosningarétti og kjörgengi kvenna hefðu getað ímyndað sér að þessum 118 árum síðar myndu þrjár konur, allar flokksformenn, mynda nýja ríkisstjórn á Íslandi? Í samstöðu og systralagi. Já – kannski gátu þær ímyndað sér það því þetta voru hugmyndaríkar og kjarkaðar konur.
Þær bjuggu í samfélagi sem var ólíkt okkar á ýmsan hátt en þó ekki svo mjög. Íslenskt samfélag er byggt á hugmyndum gamla bændasamfélagsins sem hér stóð í þúsund ár og þó að yfirborð þess hafi breyst mikið hafa grunnhugmyndir þess ekki breyst mikið. Í gamla bændasamfélaginu voru kynhlutverkin skýr; konur voru mæður og húsfreyjur, karlar bændur og fyrirvinnur. Yfirburðastaða og réttindi karla þóttu sjálfsögð, voru bara “eðlileg” skipan hlutanna. Þetta er auðvitað það sem við köllum karlveldi, hugmyndir sem eru svo sjálfsagðar að það er ekki tekið eftir þeim og konur jafnt sem karlar tileinka sér – eins og með móðurmjólkinni.
Þessar hugmyndir eru enn í hugmyndagrunni íslensks samfélags og má nefna sem dæmi, sem þið þekkið auðvitað mæta vel, að kvennastörf eru enn minna metin í launum en störf karla og að setja þurfti sérstök ákvæði í lög um fæðingarorlof til að ná körlum inn á heimilin til að hugsa um nýfædd börn sín. Hugmyndir breytast hægt.
„Það á að kjósa mig af því að ég er maður“
Þetta eru fleyg orð Vigdísar Finnbogadóttur í kosningabaráttuni 1980 og hafa þau verið endurtekin mörgum sinnum í kynningum á þáttunum um Vigdísi á RÚV og sem við höfum vísast allar horft á. Þessi orð afvopnuðu marga sem töldu allsendis óhugsandi að kona gæti verið forseti enda braut það gersamlega á hugmyndagrunni karlveldisins. Aldeilis óhugsandi,”kona”! En ef konur væru líka menn – þá breyttist málið? Menn höfðu jú alltaf verið forsetar.
Það er þetta ef, EF konur væru líka menn, sem málið snerist um. Þrátt fyrir baráttu Rauðsokka frá 1970 fyrir því að konur væru einmitt álitnar menn eins og karlar þurfti að árétta það í þessari kosningabaráttu. Það var alls ekki gefið. Árið 1980 hafði orðið maður skýra karlkyns merkingu, maður var karl. Enginn gat samt neitað því að konur væru víst líka menn, eða að minnsta kosti manneskjur.
Vigdís fór ekki fram á kvennapólitískum forsendum, hún fór fram á persónu sinni eins og tíðkast í forsetakjöri. Þegar hún var kjörin gekk hún inn í samansúrrað karlveldið þar sem ýmsir ráðamenn áttu bágt með að umgangast hana sem fullgildan forseta. Formlega neyddust þeir til að virða stöðu hennar en framan af hlustuðu þeir ekki gjörla á hana. Ég var kjörin á þing þremur árum síðar og varð vitni að þessu, varð líka fyrir því sjálf. Ég tel einnig að ef Vigdís hefði átt eiginmann hefði hún átt minni séns á að ná kjöri því í samræmi við hugmyndir karlveldisins hefðu kjósendur talið að eiginmaðurinn réði töluverðu um gjörðir hennar.
Fljótlega eftir að Vigdís var kjörin forseti 1980 urðu nokkur hugmyndaskil í kvennabaráttunni. Í stað þess að leggja áherslu á að konur væru menn eins og karlar og að þess vegna ætti að kjósa þær til opinberra ábyrgðarstarfa kom fram sú hugmynd að það ætti að kjósa konur til slíkra starfa vegna þess að þær væru konur; það væri nefnilega akkur í því að vera kvenkyns maður og reynsla og sýn kvenna væru mikilvæg við stjórn landsins.
Árið 1983 var Kvennalistinn stofnaður á þessum forsendum, bauð fram til Alþingis í þremur kjördæmum og fékk þrjár konur kjörnar. Ástæðurnar voru auðvitað átakanlegur skortur á konum á löggjafarsamkundinni þar sem alls 12 konur höfðu setið frá upphafi vega kjörnar af flokkum þar sem karlar voru í forystu. Aðalmálið var samt að kvenfrelsi var ekki til umræðu í þinginu, var ekki efni sem nokkrum þingmanni þótti nauðsynlegt að ræða eða datt í hug að væri yfirleitt til.
Kvennasamstaðan
Með Kvennalistanum kemur hugmyndin um kvennasamstöðu þvert á flokka inní þingið. Hún hafði áður orðið að veruleika í undirbúningnum fyrir kvennafríið/verkfallið 1975 og var örugglega mikilvæg forsenda þess að það tókst jafn vel og það gerði. Inni í þinginu var hins vegar engin hefð fyrir slíkri samstöðu enda þingkonur aldrei fleiri en 3 eða 4 í einu. Árið 1983 vorum við hins vegar í einu vetfangi orðnar 9; 4 frá fjórflokknum, 2 frá hinu nýja Bandalagi jafnaðarmanna með Vilmund heitinn Gylfason í broddi fylkingar, og svo við 3 þingkonur Kvennalista. Okkur fannst þetta nú dálaglegur hópur og reyndum hvað við gátum til að efna til kvennasamstöðu um ýmis málefni á þinginu.
Það gekk brösuglega. Vanar þingkonur töldu að þær yrðu sem fyrr að vinna innan ramma sinna flokka en eftir því sem á leið gekk þó betur. Ég man að engin okkar gat stutt frumvarp til laga um þrengingu á fóstureyðingarlöggjöfinni, þó að ein þingkona væri meðflutningsmaður. Með þeim fyrirvara að minnið er ekki óskeikult man ég ekki eftir neinu öðru máli sem slík samstaða var um.
Við konur erum nefnilega ekki allar eins og hugsum ekki allar eins þó að karlveldið haldi það gjarnan. Í stjórnmálum eru það hugmyndirnar sem skipta máli og við konur getum verið innbyrðis ósammála rétt eins og karlarnir. Á minni tíð var það ekki viðurkennt og ef við vorum ósammála hrópuðu karlarnir gjarnan: “sko þær koma sér ekki saman um neitt” eða “konur eru konum verstar” osfrv.
Aldamótakonurnar sem stofnuðu KRFÍ fyrir nærri 120 árum voru heldur ekki sammála um allt. Til dæmis þótti Bríeti Bjarhéðinsdóttur rétt að karlar véluðu um stærri mál samfélagsins, konur væru betri í smærri málunum sem sneru að velferð fólks. Því voru t.d. Þorbjörg Sveinsdóttir, ljósmóðir, og Ólafía Jóhannsdóttir, fósturdóttir hennar, ósammála og töldu að kvenna væri ekki síður þörf í hinum stóru málum þjóðfélagsins. Fortíðin er í raun ekki eins slétt og felld og sumir vilja ætla.
Baráttukonur hafa sem sagt alltaf haft mismunandi hugmyndir um eitt og annað, en samt náð saman þvert á hugmyndir þegar meiri frekar en minni hagsmunir eru í húfi. Það sáum við gerast um daginn þegar kven-formennirnir þrír náðu samstöðu um myndun þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Kvenorkan á milli þeirra var nærri áþreifanleg, sömuleiðis traustið og velviljinn. Þær náðu saman þvert á hugmyndir því meiri hagsmunir voru í húfi.
Horft fram á veg
Þetta fordæmi skulum við konur hafa í huga í því sem koma skal. Við höfum náð langt í ýmsu; konur eru nærri jafn margar og karlar á þingi, önnur konan er orðin forseti og meira að segja gift, önnur konan orðið biskup, líka gift, og konur eru víða í opinberum valdastöðum eins og í lögreglunni og dómstólum. Þó að við höfum með þessu hoggið í knérunn karlveldisins skulum við ekki halda að það sé liðið undir lok. Gamli hugmyndagrunnurinn er þarna ennþá, ekki jafn einhlítur eða sjálfsagður og áður var, en hann er þarna samt. Það er því ekki skrýtið þó að körlum geti fundist sér ógnað, svona eins og ef fótboltaliðið, sem drengur hefur haldið með frá barnæsku, sé við það að tapa í leik.
Við sjáum merki þessa víða; í ofbeldi gegn konum, tilraunum einkum yngri karla til að koma konum aftur inn á heimilin og kvenfjandsamlegri orðræðu af ýmsu tagi. Líkami kvenna hefur alltaf verið vígvöllur karlveldisins og við höfum horft upp á rétt kvenna til þungunarrofs þrengdan í Póllandi og í Bandaríkjunum þar sem menn hafa kosið yfir sig dæmdan kvennaníðing sem forseta. Við skulum ekki halda annað en að seta þessa manns á áhrifamesta valdastóli heims muni auka útbreiðslu og lögmæti kvenfjandsamlegra hugmynda í okkar heimshluta.Við verðum því að halda vöku okkar, virkja kvenorkuna og efla samstöðuna. Við getum þurft að fórna minni hagsmunum fyrir meiri en sýtum það ekki.
Farnist ykkur þingkonum svo öllum vel á því þingi sem senn kemur saman og KRFÍ aftur til hamingju með daginn.
Dr. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir
Fyrrv. þingkona, prófessor og sendiherra.