Kvenréttindafélag Íslands stendur stolt í breiðfylkingu samtaka kvenna og launafólks að kalla eftir kvennafrí í ár til að mótmæla landlægu kjaramisrétti kynjanna og kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað.
Konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 miðvikudaginn 24. október og fylkja liði á samstöðufund á Arnarhóli, kl. 15:30 undir kjörorðinu: Breytum ekki konum, breytum samfélaginu!
Síðastliðið ár hafa frásagnir kvenna af áreitni, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum undirstrikað að brýnt sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. Nú er nóg komið, konur eiga að vera óhultar heima og óhultar í vinnu!
Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna eru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá kl. 9–17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið kl. 14:55. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár! Eftir því getum við ómögulega beðið!
Að fundinum standa samtök kvenna og launafólks.
Kvennafrídagurinn var fyrst haldinn 24. október árið 1975 á kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Þann dag lögðu konur um land allt niður vinnu til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna fyrir þjóðfélagið. Þær vildu mótmæla og vekja athygli á launamisrétti, vanmati á störfum kvenna, skorti á virðingu og valdaleysi kvenna. Hjól atvinnulífsins og reyndar þjóðlífsins alls nánast stöðvuðust þennan dag. Fundurinn vakti athygli um allan heim og sýndi að samstaðan er sterkasta vopnið.
Síðan hafa konur komið saman og krafist kjarajafnréttis og samfélags án ofbeldis fjórum sinnum – árin 1985, 2005, 2010 og 2016 – en betur má ef duga skal: Þótt Ísland eigi að heita paradís fyrir konur í alþjóðlegu samhengi er ljóst að víða er pottur brotinn. Enn er langt í land með að ná jöfnum launum og jöfnum kjörum. Enn verða konur fyrir kynbundnu ofbeldi og áreitni á vinnustöðum sem og heima fyrir, eins og #MeToo bylgja síðasta vetrar minnti okkur öll harkalega á. Enn eru kvennastörf minna metin þegar kemur að launum, réttindum og virðingu í samfélaginu.
Nú reynir á samstöðumátt kvenna en ekki síður á samfélagið sjálft sem loksins, loksins hlýtur að geta sameinast um að breyta þessu. Hættum að breyta konum – breytum samfélaginu – til hins betra!