Í vor eru liðin 40 ár frá stofnun Kvennalistans og sérframboðum kvenna til Alþingis. Af því tilefni bjóða Kvennalistakonur til opins kvennaþings laugardaginn 18. mars á Hótel Hilton Nordica kl. 13.00-17.00. Til umræðu er staða kvenna í íslensku þjóðfélagi. Hvað brennur á konum NÚNA.
Kveikjur flytja þær Claudia Wilson lögfræðingur og stjórnarkona Kvenréttindafélags Íslands, Finnborg Salome ÞóreyjarSteinþórsdóttir kynjafræðingur, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kvennalistakona, Jóna Þórey Pétursdóttir lögfræðingur og Sonja Ýr Þorbergsdóttir form BSRB. Síðan verða umræður og samantekt.
Kvennabaráttan á Íslandi undanfarna áratugi hefur skilað verulegum árangri ekki síst fyrir endalausa baráttu kvenna. Menntun kvenna er mikil og mun meiri en karla, atvinnuþátttaka með því mesta sem þekkist og hlutfall kvenna sem kjörinna fulltrúa er nánast jafnt og hjá körlum. Konur láta víða til sín taka sem frumkvöðlar, vísinda- og listakonur, auk þess að halda uppi mennta- og heilbrigðiskerfinu sem og ferðaþjónustunni.
Samt sem áður er margt sem brennur á konum. Launamisrétti kynja er enn til staðar. Störf umönnunarstéttanna eru vanmetin. Margar konur búa við lág laun og sára fátækt. Konur bera enn meiri ábyrgð en karlar á uppeldi barna og heimilunum. Þriðja vaktin er á herðum kvenna. Ofbeldi í margvíslegum myndum gegn konum er ógnvekjandi. Feðraveldið lifir góðu lífi og ræður valdamiklu fjármálakerfinu og auðlindunum. Á sama tíma horfum við upp á hörmulegar styrjaldir og mannréttindabrot, nú síðast í Evrópu sem vekur margar spurningar um frið og öryggi að ekki sé minnst á loftslagsvána sem ógnar öllu lífi og komandi kynslóðum.
Hvernig á að bregðast við og hverju geta samræður og aðgerðir kvenna skilað? Reynslan kennir okkur að samstaðan er sterkasta tækið sem við eigum.
Hægt er að sjá facebook viðburð hér.
Til fróðleiks:
Kvennalistinn var stofnaður 13. mars 1983 á Hótel Hilton sem þá het Hótel Esja. Stofnfundurinn var vel sóttur og það voru aðeins rúmir 2 mánuður í Alþingiskosningar þegar Stofnfundurinn var haldinn. Boðið var fram í þremur kjördæmum og náðu þrjár konur kjöri þann 23. apríl 1983.