Kvenréttindafélag Íslands fagnar 110 ára afmæli sínu í dag!

Úr grein Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Kvennablaðinu sem birtist 23. janúar 1907, þar sem hún kallar eftir stofnun nýs "kosningaréttarfélags". Smellið á myndina til að lesa greinina á timarit.is.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir, Kvennablaðið 23. janúar 1907.

Kvenréttindafélagið var stofnað á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar. Sunnudaginn 27. janúar 1907 komu saman nokkrar konur á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Þingholtsstræti í Reykjavík og stofnuðu félag til að „að starfa að því að íslenskar konur fái fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir“.

Barátta þessara formæðra okkar bar drjúgan ávöxt. Einu ári síðar bauð sérstakur kvennalisti með Bríeti í fararbroddi sig fram til kosninga í Reykjavík og fjórar konur voru kjörnar í bæjarstjórn; íslenskar konur fengu kosningarétt 1915 og fyrsta konan var kjörin á Alþingi 1922, Ingibjörg Bjarnason; og í Alþingiskosningum 2016 voru konur 47,6% af kjörnum þingmönnum.

Þó er margt óunnið í jafnréttisbaráttunni og enn hallar á stöðu kvenna í samfélagi okkar. Vinnum saman að betri og jafnari framtíð!

Við í Kvenréttindafélaginu fögnum afmælinu okkar á þessu ári með ýmsu móti, með uppákomum, fundum og veislum. Stærsti viðburður ársins verður þó án efa kynjaþingið sem við blásum til í haust, þar sem fólk og félög sem starfa að og hafa áhuga á jafnréttismálum, kvenréttindamálum, hinsegin málum og mannréttindamálum geta ráðið ráðum sínum, kynnt sig og kynnst öðrum.

Þeir sem hafa áhuga á að leggja Kvenréttindafélaginu lið og gerast félagsmenn er bent á að skrá sig á vefsíðu félagsins, hér.

Hafið samband á Facebook eða í tölvupósti ef þið hafið áhuga á að aðstoða við að skipuleggja afmælisárið góða!

Aðrar fréttir