Nefnd sem metur hæfi dómara hefur sent frá sér lista yfir 15 einstaklinga sem þykja hæfastir til að taka sæti í nýjum Landsrétti. Á þessum lista eru 5 konur og 10 karlmenn, en 14 konur og 23 karlar sóttu um embætti. Ekki liggur fyrir hvort listinn sé endanlegur.
Það er ótrúlegt að núna, þegar langt er liðið á annan áratug 21. aldarinnar, sé enn verið að mæla með kynjaskiptingu sem þessari, að konur skipi einungis þriðjung sæta. Við viljum jöfn kynjahlutföll í dómsstólum landsins, á öllum dómsstigum.
Kvenréttindafélagið hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að huga að kynjahlutföllum í öllu starfi stjórnvalda og hefur í umræðu um skipun nýs Landsréttar vísað til tilmæla nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum að íslensk stjórnvöld fjölgi hratt konum í efstu sætum dómsstólanna.
Í landinu eru í gildi jafnréttislög sem kveða á um að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%. Það er ekki lengur hægt að Alþingi og stjórnvöld leyfi sér ítrekað að líta fram hjá þessum lögum.
Dómsmálaráðherra sagði í umræðum í þinginu í febrúar síðastliðnum að hún hallaðist að því að jafnréttislög giltu um öll svið samfélagsins, þar með talið dómstóla. Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að dómsmálaráðherra fylgi þessum lögum og tryggi sem jöfnust kynjahlutföll í nýjum Landsrétti.