Kvenréttindafélag Íslands sendi frá sér ályktun 15. apríl 2014 ásamt Landssambandi femínistafélaga framhaldsskólanna þar sem við skoruðum á skólayfirvöld að gera kynjafræði að skylduáfanga í grunn- og framhaldsskólum landsins.
Kynjafræði er nú kennd sem valáfangi í 17 framhaldsskólum á landinu og hefur sú kennsla verið nemendum sem sótt hafa námskeiðin til styrkingar og aukinnar meðvitundar um stöðu kynjanna. Byltingin hófst í Borgarholtsskóla, en fyrsti kynjafræðiáfanginn sem kenndur var á framhaldsskólastigi á Íslandi var að frumkvæði kennara þar. Borgarholtsskóli hefur því verið mikill frumkvöðull í jafnréttismálum og skólamálum og fyrirmynd annarra skóla.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórn Borgarholtsskóla að vera áfram leiðandi í jafnréttisbaráttunni og framúrskarandi skólastarfi með því gera kynjafræðikennslu að skyldunámsgrein innan skólans. Benda má á að í gildandi aðalnámskrá fyrir framhaldsskóla kemur skýrt fram að fara eigi fram menntun til jafnréttis þar sem kennd er gagnýnin hugsun gagnvart viðteknum hugmyndum í samfélaginu og að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra. Þá hefur í jafnréttislögum allar götur frá 1976 staðið að jafnréttisfræðsla skuli vera á öllum skólastigum og í núgildandi löggjöf frá 2008 segir í 19. grein að á öllum skólastigum skuli veita fræðslu um jafnréttismál.
Það er löngu tímabært að farið sé að þessum lögum og telur Kvenréttindafélag Íslands það verðugt verkefni Borgarholtsskóla að hafa nú frumkvæði að því að kynjafræði verði skyldunámsgrein.
Hallveigarstaðir, 20. febrúar 2015