Kvenréttindafélag Íslands skorar á embætti ríkislögreglustjóra að fjölga konum innan lögreglunnar, sérstaklega í yfirmannsstöður.
Það hallar á konur á öllum sviðum innan lögreglunnar og fæð kvenna í æðstu embættum lögreglunnar er sláandi. Í upphafi þessa árs gegndu 23 karlar stöðu yfirlögregluþjóns á landinu, en engin kona. 21 karl er aðstoðaryfirlögregluþjónn, en tvær konur.
Konur eru aðeins um 12.6% starfandi lögreglumanna, en hlutfall þeirra af brautskráðum nemendum úr Lögregluskólanum er mun hærra. Skýringin er tvíþætt; konur sem útskrifast úr Lögregluskólanum ráðast síður til starfa innan lögregluembætta landsins en bekkjarbræður þeirra, og þær sem ráðnar eru til löggæslustarfa eru líklegri til að hverfa úr starfi en karlkyns samstarfsmenn þeirra.
Í október 2013 var kynnt skýrsla um vinnumenningu innan lögreglunnar sem Finnborg Salome Steinþórsdóttir vann í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra og Háskóla Íslands. Niðurstöður þessarar skýrslu benda til að gjörbreyta þurfi starfi og skipulagningu lögregluembættanna á Íslandi.
Þar kom í ljós að tæplega þriðjungur kvenna í lögreglunni hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt hjá lögreglunni. Áreitnin var af hálfu samstarfsmanna, yfirmanna, undirmanna og utanaðkomandi aðila.
Í skýrslunni, sem byggð er á könnunum og viðtölum við lögreglumenn, kemur einnig skýrt fram að konur telja sig ekki hafa aðgengi að efstu starfsstigum lögreglunnar, og að þær séu af samstarfsmönnum sínum taldar síður hæfar til lögreglustarfa en karlar. Hægt er að lesa skýrsluna í fullri lengd hér.
Ísland er það land í heimi þar sem jafnrétti kynja er talið hvað mest og er efst á lista Alþjóðaviðskiptaráðsins (World Economic Forum) yfir þau ríki heims þar sem bil á milli kynjanna er minnst. Á Íslandi er jafnrétti kynjanna vel tryggt í lögum. Engu að síður er aðstöðumunur kynjanna enn mikill hér á landi og dæmi um þann mun er að þegar borgarar eiga samskipti við verði laganna, þá mæta þeim nánast eingöngu karlmenn.
Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að yfirvöld og embætti ríkislögreglustjóra beiti sér skilvirkt og einbeitt að því að fjölga konum innan lögreglunnar, að fjölga konum innan efstu starfsstiga lögreglunnar, og að því að bæta starfsskilyrði kvenna og karla innan lögreglunnar svo allir lögreglumenn geti starfað óhultir frá einelti og áreitni samstarfsmanna sinna.
Hallveigarstöðum, 2. júlí 2014