Kvenréttindafélag Íslands sendir frá sér eftirfarandi ályktun:

Kvenréttindafélag Íslands lýsir yfir gríðarlegum vonbrigðum yfir fækkun kvenna á Alþingi í kjölfar nýliðinna kosninga.

Í Alþingiskosningum 2016 hlutu 30 konur kosningu, en nú um helgina voru aðeins 24 konur kosnar á þing. Það þýðir að hlutfall kvenna á þingi lækkar úr 47,6% niður í 38,1%. Líta þarf tíu ár aftur í tímann til að finna verri kosningu kvenna.

Kvenréttindafélagið hvetur alþingismenn sem fá það verkefni að mynda nýja ríkisstjórn að tryggja að jöfn kynjahlutföll séu á ráðherrastólum og að jafnréttismál verði sett í forgang við myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Kvenréttindafélagið hvetur stjórnmálahreyfingar landsins að tryggja jafna þátttöku kvenna í starfi og stefnumótun í flokkum sínum. Jöfn aðkoma kynjanna að stjórnmálastarfi er okkur öllum til heilla. Jöfn þátttaka kvenna og karla í stjórnmálastarfi eykur ekki aðeins jafnrétti í samfélaginu heldur treystir það undirstöður stjórnmálaflokkanna og tryggir framgang hugmynda þeirra.

Kvenréttindafélagið hvetur þingflokka Alþingis til að hafa jafnréttissjónarmið ávallt í huga í starfi sínu á komandi Alþingi, að gæta þess að tilnefna konur og karla til jafns í þingnefndir og tryggja jöfn kynjahlutföll í opinberum nefndum og ráðum.

Hallveigarstaðir, 30. október 2017

One Comment

  1. […] við skipan ríkisstjórnar og við skipan í nefndir og ráð, nánar tiltekið fjórum sinnum á síðastliðnu ári, síðast 14. nóvember síðastliðinn. Að mati Kvenréttindafélagsins hefur Alþingi nú […]

Comments are closed.

Aðrar fréttir