lcd34-christmas-bellsJólafundur Kvenréttindafélags Íslands og Kvennasögusafnsins var haldinn á Hallveigarstöðum mánudaginn síðastliðinn. Mæting var góð og gæddu gestir sér á kökum og hlýddu á upplestur úr nýjum jólabókum.

Auður Styrkársdóttir, forstöðumaður Kvennasögusafnsins, gramsaði í hirslum sínum og gróf upp ræðuna sem Anna Sigurðardóttir, afkastamikill ritari íslenskrar kvennasögu og stofnandi Kvennasögusafnsins, hélt á stofnfundi Rauðsokkahreyfingarinnar 1975. Helga Ólafsdóttir las síðan úr kafla sínum í nýrri bók um Rauðsokkurnar, Á rauðum sokkum. Helga hýsti Rauðsokkahreyfinguna í kjallaranum sínum á Ásvallagötunni fyrstu árin og deildi með gestum fundarins minningum sínum frá þessum tíma.

Kristín Svava Tómasdóttir las ljóð úr nýju ljóðabók sinni Skrælingjasýningin og úr eldri bók sinni Blótgælur. Kristín er eitt besta ungskáld Íslands í dag og óborganlegur upplesari og vakti lestur hennar mikla kátínu meðal gesta. Hallgrímur Helgason lauk svo kvöldinu með því að lesa úr bók sinni Konan við 1000° sem fjallar um hina kjaftforu Herbjörgu Maríu Björnsson. Bókin segir sögu Herbjargar og sögu 20. aldarinnar hér á landi, og kaflarnir tveir sem hann las voru bæði drephlægilegir og afskaplega átakanlegir! Góð endalok á góðu kvöldi.

Kvenréttindafélag Íslands óskar ykkur öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs!