Kvenréttindafélag Íslands skorar á ferðamálayfirvöld á Íslandi og fyrirtæki í ferðaþjónustu að bregðast við þeim fréttum sem færðar hafa verið nýverið um að á Íslandi hafi orðið sprenging í kaupum á vændi og að kaupendur vændis séu að stórum hluta ferðamenn.
Kvenréttindafélagið hvetur aðila í ferðaþjónustu til að upplýsa ferðamenn sem hingað koma um saknæmi vændiskaupa, en samkvæmt 206. grein almennra hegningarlaga skal hver sem greiðir eða heitir greiðslu eða annars konar endurgjald fyrir vændi sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.
Dæmi um texta sem hægt væri að bæta í leiðarvísa um landið okkar er: Purchase of prostitution is illegal in Iceland. Those who pay or promise payment for sexual favors face a fine or imprisonment.
Með því að benda ferðamönnum á þessa einföldu staðreynd, að vændiskaup séu ólögleg, stuðla aðilar í ferðaþjónustu að betra samfélagi á Íslandi, rétt eins og þeir gera þegar af ábyrgð er bent á að utanvegaakstur sé ekki leyfilegur og að æskilegt sé að ferðamenn gangi örna sinna á þar til gerðum stöðum en ekki í næsta túnfæti.