UNFPA – Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út minnisblað þar sem farið er yfir kynjaáhrif COVID19 faraldursins. Þar bendir stofnunin á að sjúkdómar hafa mismunandi áhrif á kynin og faraldrar ýta undir kynjamisrétti og annað ójafnrétti í samfélögum.

Á heimsvísu eru konur um 70% þeirra sem starfa í heilsugæslu og við félagsþjónustu, þá lendir umönnun sjúkra á heimilum frekar á konum en körlum. Aukin hætta er á heimilisofbeldi nú þegar fjölskyldur eru einangraðar á heimilum vegna samgöngubanns. Konur geta haft skertan aðgang að getnaðarvörnum og erfiðara er að nálgast þjónustu vegna meðgöngu og fæðingar.

Stjórnvöld hafa í sumum tilvikum notað COVID19 sem afsökun til að takmarka aðgang kvenna að þungunarrofi. Í pólska þinginu er nú rætt frumvarp sem á að banna þungunarrof, frumvarp sem fallið var frá 2016 vegna fjöldamótmæla. Nú ríkir samkomubann í Póllandi og því tækifæri fyrir stjórnvöld að ýta í gegn frumvarpinu án mótmæla. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld, í að minnsta kosti níu fylkjum, reynt að banna þungunarrof með öllu á meðan faraldurinn gengur yfir, þessi fylki eru Texas, Ohio, Iowa, Alabama, Oklahoma, Indiana, North Carolina, Kansas og Kentucky.

Það hallar á konur í áhrifastöðum í öllum ríkjum heims sem er ólíðandi. Miklu máli skiptir að konur taki fullan og jafnan þátt í allri ákvarðanatöku sem viðkemur COVID19. Við leggjum ríka áhersla á mikilvægi þess að fólk af öllum kynjum taki jafnan þátt í að ákveða hvernig samfélag við sköpum nú, eftir að heimsfaraldurinn er yfirstaðinn, sem endranær.

Lesið minnisblað UNFPA um áhrif COVID19 á kynin hér.