Samkvæmt World Economic Forum, sem mælt hefur bil á milli kynjanna út frá fjórum megin kvörðum undanfarin ár, er bilið á milli kynjanna minnst á Íslandi. Munar þar einna mestu um aukin hlut kvenna í ráðherrastólum og á Alþingi á þessu ári en einnig eru breytingar í þátttöku  og ávinningi kvenna í menntun og atvinnulífi sem hafa eitthvað að segja um það að heildarmunur milli kynjanna dregst saman. Þar á efnahagskreppan þátt í að færa Íslandi þetta eftirsótta sæti á listanum því  munurinn á þátttökuhlutfalli kvenna og karla á vinnumarkaði hefur minnkað, væntanlega vegna þess hversu margir karlar hafa misst vinnuna.


Það ber að sjálfsögðu að fagna því að munur kynjanna mælist minnstur á Íslandi samborið við önnur ríki. Það má þó ekki missa sjónir af því að enn er mikill munur á kynjunum á Íslandi innan einstakra liða sem mælt er í skýrslunni, svo sem á launamunur kynjanna og stjórnmála- og efnahagslegri þátttöku og völdum. Af þeim fjórum megin þáttum sem skýrslan mælir (menntun, heilsa, pólitísk þátttaka- og völd og efnahagsleg þátttaka-og völd) vantar ennþá þegar á heildina er litið mjög mikið upp á að konur standi jafnfætis körlum að þeim hluta „kökunnar“ á meðan að heilsa og menntun kvenna hefur náð sömu stigum og hjá körlum – og reyndar er heilsa kvenna í mörgum ríkjum heimsins betri en hjá körlum.

Skýrsluna alla má lesa á slóðinni: https://www3.weforum.org/docs/WEF_GenderGap_Report_2009.pdf

Aðrar fréttir