Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um nýja og uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, mál S-119/2024

Kvenréttindafélag Íslands hefur kynnt sér ofangreinda aðgerðaáætlun. Kynjajafnrétti og aðgerðir í loftslagsmálum, bæði aðlögunaraðgerðir og mótvægisaðgerðir eru nátengd málefni, eins og allar samfélagsbreytingar. Þannig hefur menntun stúlkna í fátækum ríkjum verið metin ein áhrifamesta loftslagsaðgerðin ásamt plöntufæði og minni matarsóun[1].

Í aðgerðaáætluninni er margt gott að finna, eins og margar nauðsynlegar skýrslur og greinginar, en sannfærandi aðgerðum ábótavant og mat á áhrifum á (kynja)jafnrétti vantar.

 

Réttlát umskipti og samdráttur í losun

Að stærsta losunarþætti á sviði samfélagslosunar undanskildum (samgöngum á landi) eru þær greinar atvinnulífsins sem mestar gróðurhúsalofttegundir losa, afar karllægar: sjávarútvegur, framleiðsla málma og byggingariðnaður. Konur eru eingöngu 11% þeirra sem starfa við fiskveiðar og fiskeldi, 23% þeirra sem starfa við framleiðslu málma og 7 % þeirra sem starfa í byggingariðnaði árið 2023[2]. Þessar atvinnugreinar þarfnast því verulegrar endurskipulagningar, með sjálfbærnisjónarmið í huga, bæði þegar kemur að kynjajafnrétti en eru einnig uppspretta mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda. Það eru því á mörgum sviðum samfélagsins veruleg tækifæri til samlegðar milli jafnréttis og loftslagsmála. Kvenréttindafélag Íslands leggur til að stjórnvöld komi á fót samráðsvettvangi um réttlát umskipti þar sem þessi samlegðaráhrif eru skoðuð þannig að hægt sé að stuðla að meira jafnrétti og minni losun með sömu aðgerðum.

 

Á alþjóðlega kvennadaginn í ár, 8. mars, birti rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) frétt um mikilvægi kynjajafnréttis fyrir aðgerðir í loftslagsmálum og hvernig þjóðir heims grípi ekki tækifærið til þess að láta þessi tvö mikilvægu mál vinna saman[3]. Þannig auka loftslagsbreytingar misrétti en viðbrögð þar sem kynjasjónarmið eru höfð í huga eru líklegri til þess að tryggja góðan árangur og styrkja samfélagið. Þá eru konur líklegri til þess að styðja loftslagsaðgerðir[4] og ólaunuð umönnunarstörf sem konur og kvár sinna að mestu leyti, bæði gagnvart fólki eins og eldri borgurum, fötluðum og börnum en einnig gagnvart náttúrunni, vaxa í mikilvægi þegar áhrif loftslagsbreytinga koma fram.

 

Það er því sérlega mikilvægt að aðgerðaáætlanir í loftslagsmálum og fjármögnun þeirra taki skýrt mið af kynjasjónarmiðum og séu rýndar út frá áhrifum á konur og kvár.

 

Atvinnugreinasamtal og samtal við sveitafélög

Kvenréttindafélagið bendir á mikilvægi þess að grasrótarsamtök taki virkan og öflugan þátt í þeim fjölmörgu stefnumótandi aðgerðum og rannsóknum sem til þarf til þess að árangur náist í loftslagsmálum. Því þarf að hafa grasrótarsamtök með í stefnumótun og gerð aðgerðaáætlana frá upphafi. Grasrótarsamtök búa auk þess yfir miklum mannauði, hugmyndum og tengingum um allan heim sem sorglegt er að nýta ekki við svo mikilvægt verkefni sem samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda er á sama tíma og fæst þeirra hafa fjárhagslegra hagsmuna að gæta við að viðhalda óbreyttu ástandi.

Því eru það vonbrigði að sjá að þrátt fyrir mikla áherslu á samtal og samstarf við atvinnugreinar og sveitafélög hefur við uppfærslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum ekki verið leitað til grasrótarsamtaka eins og fram kemur á bls. 7 „ Uppfærð aðgerðaáætlun var unnin af fjölda sérfræðinga víðs vegar að úr stjórnkerfinu, en umhverfis,- orku og loftslagsráðuneytið hafði yfirumsjón með vinnunni í samstarfi við önnur ráðuneyti stjórnarráðsins, viðeigandi stofnanir, sveitarfélög og hagsmunasamtök úr atvinnulífinu.”

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til öflugs samráðs við breiðan hóp félagasamtaka í því að kljást við það stóra verkefni sem loftslagsváin er.

 

Jafnrétti í reynd við ákvarðanatöku í loftslagsmálum

Þó minnst sé á jafnréttissjónarmið í þeim skjölum sem fylgja aðgerðaáætluninni telur Kvenréttindafélag Íslands að allt of lítið sé að gert til þess að bregðast við lokaathugasemdum kvennanefndar Sþ við 9. skýrslu Íslands um framkvæmd samnings um afnám allrar mismunar gagnvart konum[5]. Kvenréttindafélag Íslands tekur undir áhyggjur nefndarinnar er varðar að kynjasjónarmið skorti við mótun og framkvæmda á stefnum og áætlunum um loftslagsbreytingar og forvarnir gegn hamförum en loftslagsbreytingarnar hafa mjög alvarleg og mikil áhrif á stúlkur og konur. Nefndin mælir því með að íslensk stjórnvöld “…endurskoði löggjöf sína, stefnur og áætlanir sem varða loftslagsbreytingar, viðbrögð og forvarnir gegn hamförum, til þess að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið og tryggja að konur taki þátt í þróun þeirra, samþykkt, innleiðingu og eftirliti.”

Til viðmiðunar og glöggvunar hefur Jafnréttisstofnun Evrópu gefið út verkfærakistu fyrir stefnumótendur um hvernig best sé að fást við kynjajafnrétti og sjálfbærniinnleiðingu saman sem Kvenréttindafélag Íslands telur að gæti gagnast við gerð aðgerðaáætlana í loftslagsmálum á Íslandi[6].

Aðgerðir sem gagnast til að auka jafnrétti

Kvenréttindafélag Íslands telur að margar af þeim aðgerðum sem lagt er til að farið verði í og sem eru þegar á dagskrá geti stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda um leið og þær eru til bóta fyrir viðkvæma hópa. Þar má nefna bættar almenningssamgöngur og  bætta innviði fyrir göngu- og hjólastíga. Einnig eru aðgerðir sem ekki er að finna í áætluninni sem gera ráð fyrir gjöldum á losun sem má dreifa aftur út til samfélagsins, óbeint aðgerðir sem stuðla að kynjajöfnuði þar sem þeir efnamestu losa mest og þeir efnamestu eru í miklum meirihluta karlmenn.

Einnig hafa erlendar rannsóknir sýnt að samfélagsbreytingarnar sem þurfa að verða til þess að mankyn geti lifað á jörðinni í sátt við umhverfi og náttúru felast í því að færa atvinnulíf frá harðri auðlindanýtingu  að umhyggjusamfélagi þar sem konur gegna lykilhlutverki[7].

Þrátt fyrir að í inngangskaflanum á bls. 14 og 15 í AÁL samfélagslosun um samfélagsleg áhrif og réttlát umskipti, sé jafnrétti tiltekið sem þáttur sem aðgerðir geti mögulega haft áhrif á er jafnrétti ekki nefnt sem áhrifaþáttur í ítarefni fyrir eina einustu aðgerð undir dálknum „möguleg jákvæð/neikvæð samfélagsáhrif“ þrátt fyrir að þar séu hinir þættirnir af bls. 14 og 15 nefndir, byggðamál, lýðheilsumál, efnahagur heimila og vinnumarkaðsmál. Það er að segja, niðurstaða mats á samfélagsáhrifum er að engin þeirra aðgerða sem grípa á til hafi áhrif á jafnrétti sem auðvita getur ekki staðist. Kvenréttindafélag Íslands telur því ólíklegt að aðgerðirnar hafi verið rýndar með tilliti til jafnréttismála.  Til skýringar má sjá hér fyrir neðan skjáskot úr aðgerðaáætluninni fyrir samfélagslosun og hefur verið dregin rauður hringur um það mat sem átt er við hér.

Greiningar, stöðuskýrslur, reynsluverkefni…

Að mati Kvenréttindafélags Íslands er fyrir svo brýnt verkefni fyrir samfélagið allt, óásættanlega lítið af raunverulegum aðgerðum í aðgerðaáætluninni og allt of mikið um stöðuskýrslur, greiningar, gagnaöflun, skráningar, reynsluverkefni og hvatningar. Sá stutti tími sem er til stefnu krefst þess að þeim aðgerðum sem nú þegar er vitað að skila árangri verður að beita strax en vinna skýrslur og greiningar meðfram.

Því miður hefur lítill árangur náðst í loftslagsmálum hingað til á Íslandi og megin áhersla ríkisstjórnarinnar hefur verið á að stækka karllæga geira eins og orkuvinnslu. Því er afar ólíklegt að markmið stjórnvalda um 40/55% samdrátt fyrir 2030 náist, enda eru ekki nema 5 ár í það. Þær aðgerðir hafa því neikvæð áhrif á jafnrétti, nema til meðvitaðra mótvægisaðgerða sé gripið en árið 2023 voru konur 30% þeirra sem starfa í rafmagns-, gas- og hitaveitum og 7% þeirra sem starfa í byggingageiranum2.

Sjálfkrafa samdráttur án aðgerða

Kvenréttindafélag Íslands telur að stjórnvöld geri nú eins og í fyrri áætlunum ráð fyrir allt of miklum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sjálfkrafa, það er að segja að losun dragist saman án þess að til aðgerða sé gripið. Jafnframt að samdráttur vegna aðgerða sé óraunhæfur. Dæmi um þetta er samdráttur í losun vegna orkuvinnslu en gert er ráð fyrir heildarsamdrætti milli 2022 og 2030 um 114 þúsund tonn (frá 270 þúsund tonnum niður í 156 þúsund tonn eða um næstum helming (42%)). Afar ólíklegt verður að teljast að svo mikill samdráttur náist á svo stuttum tíma enda gerir áætlunin eingöngu ráð fyrir því að 3 þúsund tonna samdráttur náist vegna skilgreindra aðgerða. Þá er afar óskýrt hvernig svo mikill samdráttur (114 þúsund tonn) geti orðið að veruleika á svo stuttum tíma. Sama staða er uppi þegar kemur að lið S.3 Efnanotkun. Þar eru þó tilgreindar skýrar aðgerðir um skattlagningu og reglugerðir en samdráttur á einungis 8 árum á að vera frá 144 þúsund tonnum niður í 58 þúsund tonn, sem er óraunhæft á svo stuttum tíma.

Þá er í áætluninni gert ráð fyrir því að samdráttur í losun frá ökutækjum verði milli 2022 og 2030 327 þúsund tonn eða 35% sem er afar óraunhæft á svo stuttum tíma, sérstaklega þar sem bifreiðaflotinn endurnýjar sig hægt og nýskráningar ökutækja sem ganga fyrir bensíni og dísel eru enn í meirihluta. Aðgerðir sem draga úr notkun bifreiða eins og bættar almenningssamgöngur og bættir innviðir fyrir hjólandi og gangandi eru skref í rétta átt en til að stuðla að breyttum ferðavenjum þarf verulegt átak og langan tíma. Á vef samgöngustofu má sjá að nýskráningar hreinorkubíla (rafmagn og metan) á þessu ári eru eingöngu 15% en nýskráningar bensín og díselbíla eru 53%[8] en um áramótin urðu breytingar á ívilnunum vegna vistvænni ökutækja. Heildarhlutfall hreinorkubíla er um 10%[9] og gæti því farið hægt vaxandi en miklar aðgerðir þarf til til þess að ná svo miklum samdrætti eins og aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir.

Því telur Kvenréttindafélag Íslands að miðað við aðgerðir og þann stutta tíma sem til stefnu er (5 ár) verði að teljast afar ólíklegt að aðgerðaáætlunin nái að skila tilætluðum samdrætti í samfélagslosun.

Lokaorð

Kvenréttindafélag Íslands fagnar uppfærðri aðgerðaáætlun en telur að samráði við gerð aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sé verulega ábótavant, að hún geri ráð fyrir óraunhæfum samdrætti og aðgerðir dugi ekki til að draga úr losun. Þá telur Kvenréttindafélag Íslands að þrátt fyrir ábendingar til íslenskra stjórnvalda að kynjasjónarmið hafi ekki verið tekin til greina við gerð uppfærðar áætlunar enda er jafnrétti hvergi að finna í mati á samfélagslegum áhrifum aðgerða.

Umsögnina má einnig lesa hér

[1] https://drawdown.org/solutions/table-of-solutions

[2] https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__vinnumarkadur__vinnuaflskraargogn/VIN10020.px

[3] https://unfccc.int/news/closing-the-gap-boosting-ambition-investing-in-women-is-key-to-climate-action

[4] https://www.econstor.eu/bitstream/10419/240475/1/wp1332.pdf

[5] https://www.stjornarradid.is/gogn/rit-og-skyrslur/stakt-rit/2023/08/30/Lokaathugasemdir-Kvennanefndar-Sameinudu-thjodanna-vid-niundu-skyrslu-Islands-um-framkvaemd-samnings-um-afnam-allrar-mismununar-gagnvart-konum/

[6] https://eige.europa.eu/publications-resources/publications/gender-responsive-evaluation-sustainable-future-all-greena-step-step-toolkit-green-and-gender-equal-europe

[7] https://www.unwomen.org/en/news-stories/explainer/2023/11/unpacking-the-care-society-caring-for-people-and-the-planet

[8] https://bifreidatolur.samgongustofa.is/#tolfraedi

[9] https://orkustofnun.is/orkuskipti/orkusetur-orkuskipti

Aðrar fréttir