Sumarið 2021 vann Birna Stefánsdóttir rannsókn fyrir Kvenréttindafélagið með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna. Rannsókninni var ætlað að skoða kynjaða umfjöllun í aðdraganda Alþingiskosninga haustið 2021 og bar skýrslan heitið: „Kynlegar kosningar: Hlutur kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og í umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga 2021“ Hægt er að lesa meira um skýrsluna hér að neðan:

Kynlegar kosningar: Hlutur kvenna á framboðslistum stjórnmálaflokka og í umfjöllun fjölmiðla í aðdraganda alþingiskosninga 2021 

Fyrir hundrað árum var Ingibjörg H. Bjarnason kjörin á Alþingi fyrst kvenna. Vonir voru bundnar við að þar með væri karlamúrinn á Alþingi fallinn en heilli öld síðar er ljóst að sú var ekki raunin heldur reyndist kjör hennar aðeins fyrsta skref í langhlaupi. Margþráð takmark um jafnt kynjahlutfall á meðal þingfólks hefur ekki enn náðst hér á landi þrátt fyrir að Ísland hafi verið leiðandi tákn í kynjajafnrétti í alþjóðasamfélaginu um árabil.

Í níu klukkustundir þann 26. október árið 2021 virtist þessu sögulega takmarki þó náð. Þegar lokatölur frá alþingiskosningum 2021 voru ljósar laust eftir klukkan níu morguninn eftir kosningar þá komst það í heimsfréttirnar að í fyrsta skipti á Íslandi sem og í Evrópu hefðu konur náð meirihluta á þingi í lýðræðiskosningum. Alls höfðu 33 konur verið kjörnar á þing eða alls 52 prósent þingfólks. Þegar leið á daginn var hins vegar talið aftur í Norðvesturkjördæmi og niðurstöður endurtalningarinnar leiddu til þess að fimm nýkjörnum þingmönnum var skipt út. Þar á meðal voru þrjár konur og í stað þeirra komu þrír karlar sem felldu meirihluta kvenna. Í kjölfarið þurfti að leiðrétta fréttir víða um heim og allir fimm frambjóðendur sem misstu sætið sitt kærðu kosningarnar en í nóvember 2021 staðfesti Alþingi að endurtalningin í Norðvesturkjördæmi gilti. Þrátt fyrir að konur hafi ekki endað í meirihluta á þingi eftir alþingiskosningarnar 2021 þá voru niðurstöður kosninganna mikið stökk í hlutfalli kvenna á þingi. Hlutfall kvenna á Alþingi fór úr 38% í kosningunum 2017 í 47,6% árið 2021.

Í fyrsta kafla þessarar skýrslu er skoðað hvaða hindranir hafa staðið í vegi fyrir jöfnu kynjahlutfalli í stjórnmálum hér á landi. Skoðaðar eru félagslegar, efnahagslegar, kerfislægar og menningarlegar hindranir. Í öðrum kafla skýrslunnar er fjallað um kynjahlutfall á framboðslistum stjórnmálaflokka í aðdraganda alþingiskosninga 2021 en röðun á framboðslista er ein af þeim af þeim kerfislægu og menningarlegu hindrunum sem staðið hafa í vegi fyrir auknum hlut kvenna á þjóðþingum. Í aðdraganda alþingiskosninganna var kynjahlutfall á framboðslistum stjórnmálaflokkanna mikið til umræðu innan flokka sem og í fjölmiðlum. Konur leiddu nær helming allra þeirra framboðslista sem buðu fram í öllum kjördæmum eða alls 47 prósent oddvitasæta. Til samanburðar voru konur 37 prósent oddvita í alþingiskosningunum árið 2017 sem og í kosningunum 2016.

Í þriðja kafla skýrslunnar er fjallað um niðurstöður megindlegar rannsóknar sem framkvæmd var við gerð skýrslunnar en hún fólst í því að kannað var hversu oft fjallað var um frambjóðendur í oddvitasætum í íslenskum fjölmiðlum síðustu tvær vikurnar fyrir alþingiskosningar 2021. Þá var skoðað hvort að munur var á tíðni umfjöllunar eftir kyni oddvita. Ákveðið var kanna þetta í ljósi þess að alþjóðlegar og evrópskar rannsóknar hafa sýnt að lítil eða skökk umfjöllun um konur í fjölmiðlum hefur neikvæð áhrif á vilja kvenna til að bjóða sig fram í kosningum og velgengi þeirra í kosningum. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að aukinn umfjöllun um konur í framboði getur stuðlað að því að fleiri konur eru kjörnar.

Í fjórða kafla skýrslunnar er fjallað um fjölþætt jafnrétti í stjórnmálum. Hlutfall kvenna á Alþingi færðist mjög nærri því að endurspegla hlutfall kvenna í íslensku samfélagi eftir alþingiskosningarnar 2021. Aftur á móti er ljóst að kjörið þingfólk endurspeglar þó með litlu móti fjölbreytileika samfélagsins. Í kosningunum 2021 hallaði verulega á frambjóðendur úr minnihluta- og jaðarhópum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna og af þeim sem voru á lista rötuðu fáir í hin svokölluðu öruggu sæti á framboðslistum flokkanna. Í fimmta og síðasta kaflanum eru niðurstöður og takmarkanir skýrslunnar dregnar saman og ræddar í lokaorðum skýrslunnar.

Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að fjölmiðlaumfjöllun um konur í oddvitasætum framboðslista stjórnmálaflokkanna reyndist 47 prósent af heildarumfjöllun fjölmiðla um oddvita flokkana síðustu tvær vikurnar fyrir kosningar. Það er áhugaverð niðurstaða þar sem hún endurspeglar kynjahlutfall oddvita í framboði. Jafnframt er niðurstaða rannsóknarinnar breyting frá fyrri rannsóknum um umfjöllun fjölmiðla um stjórnmálakonur á Íslandi en hátt hlutfall kvenna í oddvitasætum í kosningunum 2021 gætu skýrt breytingarnar sem og hátt hlutfall þingkvenna í oddvitasætum.

 

Hægt er að lesa skýrsluna í heild sinni hér.

Aðrar fréttir