Fimmtudaginn 25. nóvember nk. mun UNIFEM á Íslandi, í samvinnu við mannréttindasamtök og kvennahreyfinguna á Íslandi, þ.m.t. KRFÍ, standa fyrir Ljósagöngu í tilefni af alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi og 16 daga átaki gegn ofbeldi gegn konum sem hefst í kjölfarið.

Alþjóðlega yfirskrift átaksins í ár er: Berjumst gegn ofbeldi gegn konum á átakasvæðum  og viljum við á Íslandi leggja áherslu á ábyrgð gerenda í ofbeldismálum.

Í ár verður gengið frá Þjóðmenningarhúsinu v/Hverfisgötu kl. 19.00, að Sólfarinu við Sæbraut. Bæði áður en gengið er af stað og eftir að á áfangastað er komið, munu konur af ýmsum þjóðernum lesa ljóð sem tengjast baráttumálum kvenna. Að því loknu verður friðarsúlan tendruð.


Með Ljósagöngunni er tilgangurinn að vekja athygli á stöðu þeirra milljóna kvenna sem verða fyrir ofbeldi, bæði hér heima og erlendis. Markmiðið er einnig að minna á þá skömm og niðurlægingu sem slíku ofbeldi fylgir þegar ábyrgðin ætti að öllu leyti að hvíla á herðum gerandans.

Slökkt verður á friðarsúlunni þennan dag klukkan 19.45 til að vekja athygli á því myrkri og einangrun sem fórnarlömb kynbundins ofbeldis þurfa að búa við. Með því að tendra ljósið á ný fylgir sú von að hægt verði að vinna bug á ofbeldi gegn konum í heiminum og því kynjamisrétti sem því fylgir. Friður ríkir ekki fyrr en búið er að uppræta ofbeldi gegn konum, í öllum þeim myndum sem það birtist.

Kyndlar verða seldir á staðnum á 500 krónur.

Aðrar fréttir