Lokaskýrsla Kvennafrís 2016

24. október 2016 var haldinn baráttufundur á a.m.k. 21 stað á landinu til að mótmæla kjaramisrétti kynjanna á Íslandi. Fundir voru haldnir á Akureyri, Bolungarvík, Borgarnesi, Djúpavogi, Egilsstöðum, Grindavík, Grundarfirði, Hellu, Húsavík, Höfn í Hornafirði, Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri, Neskaupstað, Patreksfirði, Reykjanesbæ, Reykjavík, Sauðárkróki, Seyðisfirði, Vestmannaeyjum, Vopnafirði og Ölfus.

Þessi mótmæli kvenna á kjaramisrétti í íslensku samfélagi vöktu gríðarlega eftirtekt, bæði hér á landi og erlendis. Sýnt var frá fundinum á Austurvelli í beinni útsendingu á RÚV og í kjölfar fundarins kom fjöldi fyrirspurna erlendis frá um að fræðast meira um stöðu kvenna og jafnréttismál á Íslandi.

Stærsti baráttufundurinn var haldinn á Austurvelli undir yfirskriftinni „Kjarajafnrétti strax!“ Á bak við þann fund stóðu fjöldamörg samtök kvenna og samtök launafólks. Kvenréttindafélagið var einn af aðalskipuleggjendum fundarins og hefur nú gefið út skýrslu um undirbúning Kvennafrís 2016. Í skýrslunni er að finna fjölda mynda af baráttufundum út um allt land og upplýsingar sem eiga vonandi eftir að reynast þeim vel sem skipuleggja baráttufundi framtíðarinnar.

 

Smellið hér til að hlaða skýrslunni niður sem pdf skrá.