24. október 2018 var haldinn baráttufundur á Arnarhóli undir yfirskriftinni „Breytum ekki konum, breytum samfélaginu“. Að fundinum stóðu samtök launafólks og samtök kvenna á Íslandi.

Baráttufundir voru haldnir á 16 stöðum á landinu, Akureyri, Bifröst í Norðurárdal, Borgarnesi, Dalvík, Grundarfirði, Ísafirði, Mývatnssveit, Neskaupsstað, Ólafsvík, Patreksfirði, Reykjavík, Reyðarfirði, Selfossi, Skaftárhreppi, Skagaströnd og Varmahlíð.

Konur um land allt voru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:55 og fylkja liði á baráttufundi í sinni heimabyggð. Í Reykjavík voru konur boðaðar á Arnarhól þar sem dagskrá hófst kl. 15:30. Var þetta í sjötta skipti sem konur á Íslandi mótmæla mismun á kjörum kynjanna með þessum hætti en Kvennafrí voru einnig boðuð árin 1975, 1985, 2005, 2010 og 2016.

Tímasetningin 14:55 var reiknuð út frá tölum Hagstofu Íslands fyrir árið 2017 um tekjumun kynjanna en samkvæmt þeim voru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því höfðu konur unnið fyrir fullum daglaunum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við vinnudag frá kl. 9–17. Með þessu áframhaldi ná konur ekki sömu launum og karlar fyrr en árið 2047 – eftir 29 ár.

Kvenréttindafélagið var einn af aðalskipuleggjendum Kvennafrís 2018. Nú er komin út skýrsla um undirbúninginn þar sem er að finna fjölda mynda af baráttufundum út um allt land og upplýsingar sem eiga vonandi eftir að reynast þeim vel sem skipuleggja baráttufundi framtíðarinnar.