Menningar- og minningarsjóður kvenna (MMK) úthlutaði styrkjum til fjögurra ungra kvenna 7. nóvember sl. Við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, en úthlutunin fór fram í samvinnu við Kvennasögusafn Íslands, flutti fortöðukona safnsins, Auður Styrkársdóttir, ávarp ásamt Kristínu Þóru Harðardóttur, formanni MMK. Einnig flutti Hulda Jónsdóttir, nemandi í Listaháskóla Íslands, tvo kafla úr partítu nr. 2 í d-moll fyrir einleiksfiðlu eftir Bach. Styrkupphæð var að þessu sinni alls 1.200.000 kr.
Hugmyndina að stofnun sjóðsins átti Bríet Bjarnhéðinsdóttir. Laufey Valdimarsdóttir, dóttir Bríetar, hafði síðan frumkvæði að stofnun sjóðsins að móður sinni látinni og var stofnféð jafnframt dánargjöf frá Bríeti. Árið 2007 urðu kaflaskipti í sögu sjóðsins en þá arfleiddi Vigdís Rigmor Hansen sjóðinn að öllum sínum eigum sem voru umtalsverðir fjármunir ásmat snoturri einstaklingsíbúð í Reykjavík sem skal leigð út til kvenna í námi. Tilgangur sjóðsins er nú sem fyrr að styrkja konur til náms, sem og að veita konum styrk til ritstarfa. Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað árlega og er ávaltt auglýst eftir styrkumsóknum á þessari síðu.