Kvenréttindafélag Íslands hefur síðustu mánuði fundað með ýmsum félagasamtökum og stofnunum til að velta fyrir okkur aðgerðum á vinnumarkaði til að bregðast við frásögnum um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á vinnustöðum.

Vinnuhópurinn var stofnaður af Kvenréttindafélaginu í samstarfi við heildarsamtök launafólks og Félag kvenna í atvinnulífinu í kjölfar þjóðfundar sem haldinn var í febrúar síðastliðnum, þar sem konur úr #MeToo-hópum mættu og ræddu hvað þarf að gera til að tryggja öruggt starfsumhverfi og breyta úreltum viðhorfum. Á þeim fundi lögðu #MeToo konur fram skýrar kröfur til atvinnurekenda, stéttarfélaga og stjórnvalda, kröfur sem hægt er að lesa í skýrslunni Samtal við #metoo konur. Hvað getum við gert?.

Vinnuhópurinn hittist í vikunni til að vinna að nánari útfærslu á hugmyndum um úrbætur, þ.á.m. heimasíða með upplýsingar fyrir þolendur, fyrirtæki og stjórnendur, námskeið fyrir stjórnendur og fræðslu fyrir fyrirtæki og félagasamtök til að skapa góða öryggis- og jafnréttisáætlun. Hugmyndirnar og útfærslurnar hafa verið sendar til velferðarráðuneytisins, sem í síðustu viku skipaði aðgerðarhóp til að fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi á vinnustöðum.

Vinnuhópurinn mun hittast aftur í upphafi næsta árs til að meta hvernig til hefur tekist af hálfu opinberra aðila og ýta á frekari aðgerðir ef ástæða er til.

————————————–

Eftirtaldir aðilar skipa vinnuhópinn vegna #MeToo og krefjast aðgerða til að vinna gegn einelti og áreiti og vinnustöðum. ASÍ, Bjarkarhlíð, BSRB, BHM, Félag forstöðumanna ríkisins, Félag kvenna í atvinnulífinu, Félag mannauðsstjóra, fjármálaráðuneytið, Jafnréttisstofa, KÍ, Kvenréttindafélag Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Sálfræðingafélag Íslands, Vinnueftirlitið og VIRK.