Í dag fyrir fimmtíu árum var útvarpað ákalli til kvenna á rauðum sokkum að mæta niður á Hlemm og mótmæla í kröfugöngu verkalýðshreyfingarinnar. Rauðsokkurnar marseruðu niður Laugaveginn 1. maí 1970 og endurnýjuðu femínísku baráttuna á Íslandi.
Mörg baráttumál Rauðsokkanna hafa áunnist síðustu hálfa öldina, en enn eru mörg óunninn. Kynbundið ofbeldi er geigvænlegt vandamál á Íslandi, konur hafa enn lægri laun en karlar og störf kvenna eru vanmetin.
Konur á Íslandi hafa lagt niður vinnu sex sinnum síðustu 45 árin til að mótmæla kynbundnum kjaramun. Konur eru þó enn með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar.
Ísland og þjóðir heims glíma nú við mesta heimsfaraldur síðan spænska veikin geisaði árið 1918. Konur standa vaktina í framlínu í baráttunni við Covid-19. Konur eru 75% af starfsfólki í heilbrigðis- og félagsþjónustu, 76% starfsfólks í fræðslustarfsemi og 57% þeirra sem starfa við þjónustu og verslun. Án vinnuframlags kvenna væri baráttan við veiruna ómöguleg.
Covid-19 heimsfaraldurinn afhjúpar rangt verðmætamat vinnumarkaðarins. Störf kvenna eru undirstaða samfélagsins og kjörin þurfa að endurspegla það.
Nú er nóg komið.
Metum störf kvenna að verðleikum.
#kjarajafnréttistrax