Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands hefur skrifað eftirfarandi grein:


Í dag höldum við upp á 19. júní, daginn sem konur á Íslandi fengu kosningarétt árið 1915. Það er því við hæfi að við minnumst kvenna sem ruddu fyrir okkur brautina. Mig langar að segja nokkur orð um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda og fyrsta formann Kvenréttindafélags Íslands.

Bríet fæddist árið 1856 að Haukagili í Vatnsdal, elst fjögurra systkina. Hún ólst upp á miklum umrótartímum í íslensku samfélagi. Sjálfstæðisbaráttan kraumaði í sveitum landsins og unga fólkið dreymdi um að stofna nýtt samfélag. Þegar Bríet leit yfir ævi sína í viðtali sem tekið var við hana í Alþýðublaðinu í tilefni af áttræðisafmæli hennar, lýsti hún þessum tímum sem svo:

„Við sem vorum ung kringum 1874 þegar sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst vorum full af eldmóði og hugsjónum. Okkur dreymdi dagdrauma og miklar hræringar gerðu vart við sig. Ég mótaðist þessi ár og hugsaði margt. Við gerðum uppreisn gegn hvers konar órétti hvar sem við fundum hann.“

Og Bríet fann óréttlætið í kynjamisréttinu, í undirokun konunnar eins og hún orðaði það. Kornung fann hún mikinn mun á aðstöðu karla og kvenna og minntist þess hvað hana sveið það þegar hún og bróðir hennar komu inn eftir langan vinnudag við útivinnu; að hann settist niður við lestur en hún þurfti áfram að vinna. Hún kvaldist vegna þessa óréttlætis, sagði hún í viðtalinu, því hún væri mikið fyrir bækurnar en lítið fyrir útiverkin.

Bríet fór að heiman úr Húnavatnssýslu í fyrsta sinn þegar hún var tæplega þrítug og flyst til Reykjavíkur. Þar skrifar hún grein um menntun og réttindi kvenna sem birtist í Fjallkonunni 1885 og er það fyrsta  greinin eftir konu sem birtist í íslenskum blöðum. Tveimur árum seinna heldur hún fyrirlestur um sama málefni fyrir fullu húsi, aftur fyrst kvenna á Íslandi til að halda opinberan fyrirlestur.

Ísland var á þessum tíma eftirbátur nágrannaþjóða þegar kom að kvenréttindum og þátttöku kvenna í samfélaginu. Kvenréttindabaráttan hefst ekki af fullum þunga fyrr en á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar þegar Bríeti er boðið á þing Alþjóðasambands kvenréttindafélaga þar sem hún var hvött til að stofna félagasamtök á Íslandi til að berjast fyrir borgaralegum réttindum kvenna. Og það var í stofunni heima hjá Bríeti að Þingholtsstræti 18 að Kvenréttindafélag Íslands er stofnað 27. janúar 1907, félag sem frá upphafi hefur haft það á stefnuskrá sinni að “starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og rétt til embætta og atvinnu með sömu skilyrðum og þeir.”  

Sú barátta stendur enn yfir, 116 árum síðar, því konur í dag búa ekki við sömu réttindi og karlar á Íslandi og kynjamisrétti er rótgróið í samfélagsgerðinni. 

Kynbundið launamisrétti er landlægt hér á landi, konur búa við skert kjör þegar miðað er við karla. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands eru konur með 21,9% lægri atvinnutekjur en karlar að meðaltali.

Ofbeldi gegn konum er landlægt hér á landi. 40% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir ofbeldi, 32% kvenna hafa orðið fyrir áreitni á vinnustað og 14% kvenna eru með einkenni áfallastreituröskunar, samkvæmt niðurstöðum úr rannsókninni Áfallasaga kvenna sem unnin var af Háskóla Íslands.

Tölur sem þessar sýna svart á hvítu að þrátt fyrir sleitulausa baráttu ótal kvenna, karla og kvára síðustu áratugina, þá lifa konur ekki frjálsar og öruggar hér á landi, fullum kvenréttindum er ekki náð.

Bríet og baráttusystkini hennar tóku fyrstu skrefin í átt að því að búa til nýja samfélagsgerð sem byggist á lýðræði, réttlæti og mannréttindum. En starfinu er engan veginn lokið. Það er okkar sem lifum á nýrri öld að halda baráttunni áfram og skapa saman betra samfélag.

Því kvenréttindabaráttan er mun meira en bara barátta fyrir bættum kjörum og rétti kvenna: hún er barátta fyrir bættum kjörum og rétti kvára og karla; barátta fyrir jafnri stöðu fólks á Íslandi óháð uppruna eða félagsstöðu eða fötlunar eða kynvitundar; mannréttindabarátta sem tekur virka stöðu gegn hvers konar mismunun. 

Heimurinn horfir til Íslands sem jafnréttisparadísar. Við sem búum hér vitum auðvitað að þetta er tálsýn, en engu að síður er staðan hér betri en í flestum löndum heims. En þessari stöðu okkar fylgir líka ábyrgð. Afturhaldsbylgja skellur nú á ströndum Vesturlanda, háværar raddir lýðskrumara sem ala á hatri og ótta gagnvart kynsegin fólki til að ýta í gegn lagasetningum og reglugerðum sem grafa undan kvenfrelsi og lýðræði. Trans konur og fatlaðar konur eru sérlega útsettar fyrir mismunun og ofbeldi. Staða kvenna á flótta og á stríðssvæðum er mjög viðkvæm. Það er skylda íslenskra stjórnvalda að beita sér gegn þessu bakslagi á alþjóðavettvangi og það er skylda íslensku grasrótarinnar að sýna samstöðu, heima og að heiman.

Í dag, kvenréttindadaginn 19. júní, skulum við minnast Bríetar og allra baráttukvennanna sem lögðu undirstöðurnar að íslenska lýðveldinu; og við skulum heiðra þær með því að halda baráttunni áfram, okkur öllum til heilla.

Erindið var upphaflega flutt á Rás 1, 19. júní 2023