Í dag boðuðu 13 kvenna- og jafnréttissamtök til fundar, Aflið, Druslugangan, Femínistafélag Háskóla Íslands, Flóra, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennaathvarfið, Kvennahreyfing ÖBÍ, Kvennaráðgjöfin, Kvenréttindafélag Íslands, Rótin, Stígamót, W.O.M.E.N. og UN Women.

Samtökin vekja athygli á kerfisbundnu misrétti gegn konum í réttarkerfinu og leggja fram tillögur til úrbóta.

Níu konur hafa nú kært íslensk stjórnvöld til Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir að hafa brotið á rétti sínum til réttlátrar málsmeðferðar. Konurnar eiga það sammerkt að vera brotaþolar sem kærðu nauðganir, heimilisofbeldi og/eða kynferðislega áreitni til lögreglu en málin voru felld niður af ákæruvaldinu.

Að mati femínísku hreyfingarinnar sýna málin hvernig íslenska ríkið brýtur kerfisbundið gegn rétti kvenna sem kæra kynbundið ofbeldi og bregst þannig skyldum sínum til að tryggja rétt kvenna á Íslandi til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu.

Femíníska hreyfingin á Íslandi krefst þess:

  • Að brotaþolar sem kæra kynferðisbrot eða ofbeldi í nánum samböndum verði veitt aðild að sakamálinu, ekki síst í því skyni að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart ríkinu. Í dag eru brotaþolar einungis vitni í eigin máli og hafa því lítinn rétt á að fylgjast með framgangi málsins eða gera athugasemdir.
  • Að auknu fjármagni sé veitt í rannsókn og saksókn mála sem varða kynferðisbrot og ofbeldi í nánum samböndum í þeim tilgangi að auka gæði málsmeðferðarinnar og stytta málsmeðferðartíma.
  • Að dómurum, saksóknurum og lögreglu sé veitt fræðsla um vilja löggjafans varðandi þau ákvæði sem snúa að kynferðisbrotum og ofbeldi í nánum samböndum, og þá sérstaklega um nauðgunarákvæðið sem byggir nú á samþykki.
  • Að brotaþolar í kynferðisbrotamálum og málum er varða ofbeldi í nánum samböndum hafi rétt á gjafsókn og ríkissjóður ábyrgist dæmdar bætur í einkamálum gegn tjónvöldum með sambærilegum hætti og kveðið er á um í lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. Þetta myndi veita brotaþolum aukinn möguleika á lagalegri viðurkenningu á því óréttlæti sem þær voru beittar, sé sakamálarannsókn á broti gegn þeim hætt eða mál fellt niður.

Lesið meira hér: https://stigamot.is/2170-2/