Nóvemberhitt Femínistafélagsins verður haldið þriðjudaginn 4. nóvember nk. kl. 20:00 , sem einnig er kjördagur til forsetakosninga í Bandaríkjunum. Staðurinn er að venju á annarri hæð Sólons.
Í tilefni dagsins ætlar Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur að ræða um kosningarnar frá femínísku sjónarmiði en þar er af nægu að taka. Glerþakið í bandarískum stjórnmálum hefur verið enn sterkara en í Evrópu og spila þar ýmsir þættir inn í. Velt er upp spurningum um femínisma Palin og spurningin endalausa: „Er kona alltaf betri fyrir konur?“ tekin fyrir. Er hægt að reikna með því að konum fjölgi í bandarískum stjórnmálum eftir harða kosningabaráttu milli Hillary Clinton og Obama í forkosningum demókrata?
Að lokinni framsögu Silju verður orðið laust fyrir vangaveltur og spurningar.