Kvenréttindafélag Íslands harmar það ástand sem upp er komið á fjármálamörkuðum og hjá fjármálastofnunum landsins.

Við yfirtöku ríkisins á fjármálastofnunum hefur Fjármálaeftirlitið skipað þrjár skilanefndir. Aðeins tvær konur eru meðal þeirra fimmtán sem skipaðir hafa verið í nefndirnar.

Kvenréttindafélag Íslands krefst þess að Fjármálaeftirlitið fari að íslenskum lögum eins aðrar stofnanir og gæti að hlutfalli kynjanna þegar skipað er í nefndir.

Kvenréttindafélag Íslands bendir á að markmið Jafnréttislaganna sé m.a. það að  „gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að kynjasamþættingu í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins“ og að „vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu“.

Kvenréttindafélag Íslands minnir á að fyrr á þessu ári gáfu hundrað konur, sem allar hafa mikla reynslu í atvinnulífinu, kost á sér til setu í stjórnum og nefndum og því er ekki hægt að bera fyrir sig skort á konum til starfsins. Konur jafnt sem karlar þurfa að takast á við fjármálakreppuna og því er rétt að konur komi að því að vinna að lausnum hennar ekki síður en karlar.

Jafnframt fagnar Kvenréttindafélag Íslands ráðningu Elínar Sigfúsdóttur sem bankastjóra Nýs Landsbanka og óskar henni velfarnaðar í starfi.

Aðrar fréttir