Nú er komin út á vefnum „Stöðvum hrelliklám: Löggjöf og umræða“, skýrsla Kvenréttindafélags Íslands um hrelliklám. Í skýrslunni er farið yfir lagasetningar ýmissa landa gegn hrelliklámi og rýnt í viðhorf íslenskra ungmenna til hrellikláms.
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir vann skýrsluna sumarið 2015 og var starf hennar styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna hjá Rannís. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Vigdís Fríða lengi verið virk í jafnréttisbaráttunni, en á menntaskólaárum sínum stofnaði hún Femínistafélag Fjölbrautaskólans á Suðurlandi. Vigdís Fríða stundar nám í félagsfræði og kynjafræði við Háskóla Íslands.
Hrelliklám á sér langa forsögu, en nýlega hefur hrelliklámsmálum fjölgað ört. Viðbrögð við dreifingu hrellikláms hafa verið skjót, sérstaklega síðustu tvö árin. Ýmis alþjóðleg tölvunarfyrirtæki og samskiptamiðlar hafa hafið sérstakar aðgerðir til þess að sporna gegn dreifingu hrellikláms og stofnanir og félagssamtök hér á landi eru byrjuð að safna upplýsingum um umfang og eðli hrelliklámsmála sem á þeirra borð berast.
Skiptar skoðanir eru um hrelliklám meðal ungu kynslóðarinnar. Þátttakendur í tveimur rýnihópum upplifðu mikinn kynslóðarmun á því hvort það sé í lagi að senda nektarmynd eða ekki. Einnig var algeng upplifun þátttakenda að strákar sendu fleiri nektarmyndir en stelpur, en ungar stelpur voru hins vegar sérlega oft nefndar sem líklegir brotaþolar hrellikláms.
Frumvarp til laga gegn hrelliklámi var lagt fram á Alþingi haustið 2014 og svo aftur, óbreytt, 2015. Umsagnir sem bárust um frumvarpið 2014 benda þó til þess að ýmsar breytingar þurfi að gera á frumvarpinu til að löggjöfin komi að gagni.
Smellið hér til að lesa „Stöðvum hrelliklám: Löggjöf og umræða“ eftir Vigdísi Fríðu Þorvaldsdóttur.