Kvenréttindafélag Íslands hélt aðalfund sinn á Hallveigarstöðum í dag, 29. maí 2018.

Á fundinum voru þrjár nýjar konur kosnar í stjórn, Katrín Júlíusdóttir, Sunna Gunnars Marteinsdóttir og Vilborg Ólafsdóttir. Taka þær sæti í stjórn Kvenréttindafélagsins þar sem áfram sitja Fríða Rós Valdimarsdóttir formaður, Dagný Ósk Aradóttir Pind, Ellen Calmon, Helga Dögg Björgvinsdóttir, Hildur Helga Gísladóttir, Steinunn Stefánsdóttir og Tatjana Latinovic.

Úr stjórn véku Eyrún Eyþórsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir og Snæfríður Ólafsdóttir, sem hafa áralanga stjórnarsetu að baki og hafa unnið mörg verkin fyrir félagið. Þakkar Kvenréttindafélag Íslands þeim fyrir ómetanlegt framlag til félagsins og hlakkar til áframhaldandi samstarfs á nýjum vettvangi.

Á fundinum voru lögð fram drög að nýrri stefnuskrá Kvenréttindafélags Íslands sem unnin var á stefnumótundarfundi á Kynjaþingi 3. mars 2018. Voru drögin samþykkt með þeim fyrirvara að framkvæmdastýru og stjórn er falið að breyta orðalagi í samræmi við athugasemdir aðalfundar.

Á fundinum var einnig lögð fram tillaga stjórnar að sækja um inngöngu í evrópsku regnhlífarsamtökin European Women‘s Lobby eða EWL. Markmið EWL er að berjast fyrir kvenréttindum á evrópskum vettvangi og vera þrýstiafl fyrir kvenréttindi og jafnrétti kynjanna innan evrópskra stofnanna, sem og til að styðja við aðildafélög í starfi sínu á evópskum vettvangi. EWL var stofnað árið 1990 og eru höfðstöðvar þeirra í Brussel. Rúmlega 2000 félög eiga aðild að EWL, en aðeins eitt félag í hverju landi eru fullgildir aðilar að EWL og hyggst Kvenréttindafélag Íslands sækja um fulla aðild.

Á fundinum var einnig lögð fram sú tillaga að Kvenréttindafélag Íslands gangi úr félagasamtökunum Landvernd. Kvenréttindafélagið á aðild að ýmsum samtökum bæði innanlands og á erlendri grundu og eru þessi samtök að meginþorra samtök sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Var þessi tillaga samþykkt einróma en á sama tíma voru fundargestir hvattir til að ganga í Landvernd og styðja það mikilvæga starf sem samtökin vinna.