Ábendingar Kvenréttindafélags Íslands til starfshóps vegna Landsáætlunar um framfylgd samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningsins), mál í samráðsgátt nr. 261/2023

Kvenréttindafélag Íslands styður heilshugar við vinnu við landsáætlun um framfylgd Istanbúlsaminingins og fagnar því að dómsmálaráðuneytið hafi sett starfshópinn á fót. Kvenréttindafélagið áréttar eindregin vilja sinn til þess að aðstoða starfshópinn í hvívetna.

Kvenréttindafélagið bendir á mikilvægi þess að grasrótarsamtök eigi fulltrúa í starfshópnum og að virkt samtal verði í gangi við öll þau fjölmörgu grasrótarsamtök sem starfa að forvörnum og baráttu gegn ofbeldi á konum á Íslandi.  Félagið bendir einnig á að starfshópurinn ætti að skoða sérstaklega gerð tölfræðiupplýsinga og fræðslu sem tengist ofbeldi gegn konum og ofbeldisforvörnum.

Jafnrétti er ofbeldisforvörn

Félagið telur að aukið jafnrétti sé í sjálfu sér ofbeldisforvörn og býður fram krafta sína í að móta aðgerðir í ofbeldisforvörnum.

Þá telur félagið mikilvægt að við vinnu starfshópsins verði einnig skoðaðir möguleikar þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis til þess að vinna úr ofbeldinu og sækja sér réttarbót. Mögulega þyrfti að skoða hvort aðrar leiðir en lögreglukæra og dómsmál eru fýsilegar í þessum tilvikum.

Því miður eru ofbeldi gegn konum viðvarandi vandamál á Íslandi sem ekki hefur tekist að vinna bug á og vinna starfshópsins því mikilvæg.