Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands hélt eftirfarandi ræðu á samstöðufundi með konum á flótta 4. desember. 


Kvenréttindafélag Íslands vinnur að kvenréttindum allra kvenna á Íslandi. Við vinnum að mannréttindum allra og gegn hvers konar mismunun. Við mismunum ekki konum eftir félagsstöðu, uppruna eða ástæðum fyrir veru þeirra hér á landi.

Það hryggir okkur og vekur ugg að fylgjast með brotum á mannréttindum kvenna sem minnst mega sín og sem koma til Íslands í von að bjarga lífi sínu.  Íslensk stjórnvöld hafa verið dugleg að hreykja sér af jafnréttisparadísinni okkar við hvert tækifæri bæði heima og erlendis. Konur koma hingað í von að geta fengið sanngjarna meðferð en þeim er oftar en ekki hent út úr landi áður en þær geta talað fyrir sínu máli, sem er grunnkrafa allra lýðræðislega réttarkerfa. Í nafni skilvirkni. Og já, mannúðar, þó að ég á eftir að heyra útskýringu frá einhverjum í hverju sú mannúð felst.

Íslendingar eru frægir á alþjóðlegum vettvangi fyrir að hafa þróað alls konar lausnir, lög og reglugerðir til að jafna hlut kynjanna. Flestar af þessum lausnum hefðu ekki orðið til hefði það ekki verið fyrir þrotlausa baráttu femínísta. Þó að samsetning samfélagsins í dag er öðruvísi en hún var fyrir 100 árum þegar Bríet Bjarnhéðinsdóttir barðist fyrir kosningaréttinum eða 50 árum þegar Rauðsokkurnar kveiktu lífi á ný í skipulagða baráttu fyrir kynjajafnrétti, þá dreg ég dreg virkilega í efa að femínístar á undan okkur hafa hugsað sér að útiloka ákveðna hópa frá réttindum sem þeir voru að berjast fyrir. Nei, alvöru baráttan fyrir kvenréttindum var og er og mun alltaf vera baráttan fyrir öllum konum, þar sem engin er skilin út undan.

Kyn og kyngervi skiptir miklu máli í mannréttindabaráttunni. Fjölþætt mismunun er staðreynd. Þess vegna verða allar aðgerðir til að ná kynjajafnrétti að ná til allra kvenna, líka kvenna á flótta. Og þess vegna þurfa kynjasjónarmið að vera höfð í huga við úrvinnslu allra mála, líka kvenna á flótta.

Sú ákvörðun að neita meðvitað konum í sérstaklega viðkvæmri stöðu um vernd hér á landi er brot á íslenskum lögum sem og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda eins og Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Samningi Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og Istanbúlsamningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum. Ísland er að brjóta gegn sáttmálum alþjóðasamfélags sem það er hluti af. Ákvörðunina ber að afturkalla tafarlaust.

Kvenréttindafélag Íslands stendur með konum á flótta og trúir þeim. Brot á mannréttindum einnar konu er brot á mannréttindum okkar allra!