Ræða flutt á Austurvelli fimmtudaginn 3. Nóvember. 

Aðfaranótt fimmtudagsins 3. nóvember tóku 41 lögregluþjónn þátt í fjöldabrottvísun flóttafólks til Grikklands. Leigð var vél til þess að flytja samtals 28 manns á brott. 13 fundust ekki en 15 voru handtekin og send á götuna í Grikklandi.

Þessar brottvísanir eiga sér ekki stað í tómarúmi. Jarðvegurinn hefur verið vel undirbúinn af dómsmálaráðherrum síðustu ára, af forstöðufólki ÚTL og KNÚ og síðast en ekki síst af núverandi dómsmálaráðherra Jóni Gunnarssyni, sem hefur farið fram úr öllum væntingum hvað varðar fordómafullan og vísvitandi rangan málflutningi um málefni fólks á flótta.

Í margar vikur og mánuði hefur hann ásamt Bryndísi Haralds, Ásmundi Friðriks, Bergþóri Ólasyni, Sigmundi Davíð, Birgi Þórarinssyni  og fleirum básúnað rugl fullyrðingum sem miða að því einu að auka óröyggistilfinningu og andúð í garð eins af jaðarsettustu hópum á Íslandi; fólks á flótta.

Fyrir skömmu hóf svo lögreglan mannaveiðar á kaliberi sem ekki hefur sést áður í garð þessa sama hóps. Markmiðið var að handtaka fólk sem stóð til að brottvísa og hneppa það í varðhald fram að brottför. Lögreglan réðst meðal annars inn í ungmennahúsið Hamar í Hafnafirði, sem er miðstöð fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára, til að handtaka ungan mann sem var vinamargur þar. Lögreglan beið fyrir utan Fjölbraut í Ármúla og handtók tvær systur frá Írak þegar þær komu út úr skólanum. Einn af þeim sem var vísað úr landi var nýverið orðinn 18 ára, en var barn þegar hann kom til landsins. 

Síðan þegar fjölmiðlar mæta til að upplýsa almenning um mannréttindabrot og ómannúðlega meðferð ríkisins á fólki á flótta, þá skipar lögreglan að koma í veg fyrir þá upplýsingaöflun með því að láta lýsa flóðljósum að myndavélum og fjölmiðlafólki, þannig ekkert sést nema skerandi hvítt ljós. Er ekki talað um að man sjái hvítt ljós rétt áður en dauðinn tekur við? 

Ekki það að ég veit að mannsæmd lögreglufólks og stjórnmálafólks dó um leið og þau tóku við störfum sem verndarar og forstjórar ríkismaskínunnar sem handtekur, misþyrmir, dæmir ranglega, brottvísar, læsir inni, niðurlægir og lýgur. Og slík meðferð á ekki einungis við fólk á flótta, heldur  á þetta einnig við um Erlu Bolladóttur og alla aðra þolendur dómkerfisins, heimilislausa sem fá hvorki þjónustu við hæfi né húsnæði, þolendur kynferðisofbeldis sem upplifa enn meira áfall í viðureign við “réttar”kerfið, börn sem vistuð voru á ríkisstofnunum þar sem starfsfólk beitti það ofbeldi líkt og stúlkurnar sem voru vistaðar á Laugalandi og fötluðu börnin á Kópavogshæli … og svona mætti lengi telja. 

Hvítt ljós sem byrgir sýn.

Flóðljós lögreglunnar sem reynir að koma í veg fyrir að við sjáum hvað er að gerast. Flóðljósið í orðum forstætisráðherra þegar hún birtist í fjölmiðlum og lætur annars vegar eins og allt sé eðlilegt og hinsvegar eins og hún viti ekkert hvað sé í gangi. Flóðljósið sem við lýsum framan í okkur sjálf þegar við segjumst ekki trúa því að þetta sé að gerast hérna, á Íslandi, 2022. 

En ef við náum að píra augun og sjá í gegnum flóðljósin, þá sjáum við tvær rútur fullar af lögreglufólki á yfrivinnukaupi við að flytja 28 einstaklinga nauðuga úr landi. 

Við sjáum að ríkisstjórninni hefur fjölda starfsfólk og lögreglumanna á launum við slíkt ógeð um leið og þau þykjast ekki hafa mannafla eða fjármagn til að sinna rannsóknum á kynferðisbrotamálum, til að nefna eitthvað dæmi.

Peningum er ausið í brottvísanir og vopnavæðingu á þeim forsendum að Ísland sé orðið svo hættulegt, þá sérstaklega vegna allra útlendinganna samkvæmt lögreglu (sem hreykir sér af því að kynþáttamarka (e. racial profiling) fólk og brottvísa). Það gleymist þó alltaf að minnast á það að faðir ríkislögreglustjóra er stærsti vopnasali landsins og selur ólögleg skotvopn! 

Við sjáum þetta öll, og við vitum líka öll að þessi mál tengjast. 

Við vitum öll að brot á fötluðum manni og fjölskyldu hans tengist allri hinni kúguninni og ógeðinu sem viðgengst á hverjum degi.

Mér finnst leiðinlegt að segja það upphátt, en það bendir allt til þess að hlutirnir munu ekki fara batnandi, jafnvel þó að árið sé 2022, jafnvel þó að við búum á Íslandi. 

Við sjáum það alls staðar í kringum okkur og fyrsta skrefið í átt að valdeflingu og raunverulegri mótstöðu er að viðurkenna það.  Af því að  þó að mótstaðan gegn ofríki og ofbeldi sé erfið, óþægileg og geti kostað mikið andlega, líkamlega og félagslega, þá er það í þessari baráttu sem er að finna óstjórnlega löngun til lífsins, kærleika og þrótt, en einungis ef við gerum það saman og stöndum með hvort öðru. 

Þá fyrst er hægt að taka upp steinvölu og slengja í flóðljóskastarann, fyrst einn og svo fleiri.

Það að dreyma um baráttu eða betri heim er ekki nóg, eins og skáldið orti:

draumar þínir geta ekki
sagt mér hver þú ert
því sagan þín er sagan af því
sem þú hefur gert

Látum ekki flóðljósin blinda okkur og höldum áfram baráttunni!

 

Ræðuna flutti Elí Hörpu og Önundar