Kvenréttindafélag Íslands efnir til ræðumaraþons í Kringlunni helgina 23.-24. október nk. Nokkrir valinkunnir kvenskörungar munu hefja maraþonið á hádegi fyrri daginn. Hver konan tekur svo við af annarri með 10-15 mínútna framlagi hver í heilan sólarhring, þ.e. fram að hádegi næsta dag.
Sú hugsun liggur að baki framtakinu að allar konur hafi eitthvað fram að færa. Konunum er frjálst að tala um hvaðeina sem liggur þeim á hjarta, t.d. kvenréttindi, kjör kennara, vísindi, hjúkrun, fjármál, barnauppeldi, veðrið, teiknimyndasögur, skipulagsmál, heimspeki, bifvélaviðgerðar og viðskipti. Ef tíminn til að semja ræðu eða hugmyndaflugið stendur á sér er þeim velkomið að lesa upp uppáhaldsljóð eða kafla úr bók. Öllum konum er velkomið að taka þátt í maraþoninu, þ.e. engin aldursmörk.
Við biðlum til fulltrúa kvenréttindafélaga og stórra kvennafélaga að hjálpa okkur að kynna hugmyndina og fá konur til að taka þátt í maraþoninu. Ákjósanlegt væri ef hvert félag gæti sent KRFÍ (krfi@krfi.is) lista með nöfnum a.m.k. 10 þátttakenda. Með nöfnunum þyrfti að fylgja símanúmer og/eða tölvupóstfang og óskir um sérstakan ræðutíma (ef óskað er eftir að komast að á ákveðnu tímabili). Listunum þarf að skila til Kvenréttindafélagsins fyrir 10. október nk. KRFÍ fer yfir listana, raðar konunum niður á sólarhringinn og lætur þær vita hvenær þeim hefur verið úthlutaður tími. Framkvæmdastjóri Kvenréttindafélagsins er Ragnhildur G. Guðmundsdóttir vs. 551-8156, gsm 898-4437.
Með ósk um gott samstarf.
Fyrir hönd Kvenréttindafélagsins, Anna G. Ólafsdóttir og Margrét Steinarsdóttir.