Rut Einarsdóttir ný framkvæmdastýra Kvenréttindafélags Íslands

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands tilkynnir með gleði og ánægju að Rut Einarsdóttir tekur til starfa sem ný framkvæmdastýra félagsins þann 1. mars næstkomandi. 

Rut er með BBA gráðu í hagfræði og nýsköpun frá Ritsumeikan Asia Pacific University í Japan og er að ljúka við MSc í átaka-, stríðs- og þróunarfræðum frá SOAS háskólanum í Lundúnum. 

Rut býr yfir víðtækri reynslu af starfi félagasamtaka, jafnt hérlendis sem erlendis. Í rúman áratug hefur Rut tekið þátt í fjölbreyttu félagsstarfi á vegum ýmissa félagasamtaka víða um heim, m.a. í Bangladess, Japan, Víetnam og Kenya, sem og í heimabyggð sinni, Vesturbyggð. Rut hefur setið í stjórn Kvenréttindafélagsins í tvö ár og gegnir fyrir hönd félagsins embætti varaformanns stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands. Rut hefur djúpa þekkingu á starfi félagsins og sterka framtíðarsýn á hlutverki Kvenréttindafélagsins í að tryggja stöðu kvenna og jafnrétti kynjanna á öllum sviðum. Hún stígur nú til hliðar úr stjórn Kvenréttindafélagsins og hefur störf á skrifstofu félagsins.

Rut hefur veigamikla reynslu af alþjóðastarfi og hefur hún til að mynda setið ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun (UNCTAD), verið ungmennafulltrúi Íslands á sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins og setið í ráðgjafaráði Evrópuráðsins um málefni ungs fólks. Þá hefur hún beitt sér fyrir aukinni aðkomu kvenna í öryggismálum og stóð meðal annars fyrir fyrirlestraröðinni „Feminist Leadership in Disarmament“ í gegnum afvopnunarsamtök sem hún starfaði fyrir í Lundúnum. 

Tatjana Latinovic formaður Kvenréttindafélags Íslands segir að þessu tilefni: „Við í stjórn Kvenréttindafélagsins erum himinlifandi glaðar að fá Rut til starfa á skrifstofu félagsins. Hún er sannur femínisti og hefur verið mikilvæg rödd í stjórninni. Við hlökkum til að vinna með henni áfram að þróa og styrkja okkar góða félag.“

Ég er ótrúlega þakklát traustinu sem mér er sýnt og hlakka til að nýta reynslu mína til þess að styðja áframhaldandi baráttu fyrir kynjajafnrétti, jafnt hér á landi sem og erlendis, í samstarfi við stjórn Kvenréttindafélagsins,“ segir Rut Einarsdóttir 

Rut tekur við af Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, sem hefur starfað sem framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins síðan árið 2011. Brynhildur hefur nú störf sem formaður  í stéttarfélaginu Fræðagarði, en mun starfa áfram með Kvenréttindafélaginu næstu misseri til að tryggja að þekking sín og reynsla komist til skila. 

Við þökkum Brynhildi kærlega fyrir samstarfið og bjóðum Rut kærlega velkomna til starfa!