Í gær sendi nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum tilmæli til íslenskra stjórnvalda um hvað betur má fara í jafnréttismálum hér á landi, og lagði sérstaka áherslu á ofbeldi gegn konum og að fjölga konum í lögreglunni og Hæstarétti.
Ísland undirritaði samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismunar gagnvart konum, eða Kvennasáttmálann eins og hann er betur þekktur (e. CEDAW: Convention on the Elimination of All Forms of Discrimination Against Women) á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn 1980. Hann var fullgiltur af Alþingi 1985 eftir mikinn þrýsting íslenskra kvennasamtaka. Í dag eru 189 ríki aðilar að sáttmálanum.
Kvennasáttmálinn inniheldur 30 ákvæði og inngangsorð, sem eru grunnreglur um jafnrétti og áætlanir ríkja til að koma í veg fyrir mismunun gegn konum. Fulltrúar velferðarráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins mættu á fund nefndar Sameinuðu þjóðanna um Kvennasáttmálann í Genf 17. febrúar síðastliðinn og svöruðu þar fyrir framkvæmd Íslands í jafnréttismálum og aðgerðir til að afnema mismunun gagnvart konum.
Mannréttindaskrifstofa Íslands og Kvenréttindafélag Íslands skiluðu inn skuggaskýrslu til nefndarinnar í aðdraganda fundarins, þar sem bent er á brotalamir í lagasetningu og áætlunum stjórnvalda og hvað betur má fara í starfi opinberra aðila til að útrýma mismunun gagnvart konum. Samtökin sendu einnig fulltrúa sinn, Brynhildi Heiðar- og Ómarsdóttur, á fundinn í Genf til að fylgjast með fyrirtöku Íslands og fylgja eftir skuggaskýrslunni.
Í vikunni birti nefnd Sameinuðu þjóðanna frá sér tilmæli til íslenskra stjórnvalda varðandi ákvæði kvennasáttmálans sem ekki er framfylgt með viðunandi hætti. Lögð var sérstök áhersla á tvö tilmæli:
- að stjórnvöld samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna, og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti út um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum (verkefnið „Að halda glugganum opnum“).
- að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti, og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar (stöðu sendiherra)
Þess er óskað að stjórnvöld sendi nefndinni framhaldsskýrslu innan tveggja ára um framkvæmd þessara tveggja atriða.
Einnig birti nefndin fjölda annarra tilmæla til íslenskra stjórnvalda til að tryggja afnám mismunar gagnvart konum, eins og t.d.:
- að samþykkja tafarlaust aðgerðaáætlun í jafnréttismálum;
- að tryggja fjármögnun Jafnréttisstofu og íhuga flutning hennar til Reykjavíkur;
- að breyta/skýra hegningarlöggjöfina og banna stafrænt ofbeldi og sálrænt ofbeldi;
- að tryggja aðgengi allra kvenna að kvennaathvarfi, líka kvenna úti á landsbyggðinni, kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna;
- að opna bráðamóttökur kynferðisofbeldis út um allt land;
- að fjármagna aðgerðir gegn mansali;
- að rannsaka stöðu kvenna sem starfa á svokölluðum „kampavínsklúbbum“;
- að íhuga að gera kvenréttindi (kynjafræði) að skyldufagi í grunnskólum og menntaskólum;
- að tryggja að námsbækur sýni raunhæfa mynd af stöðu og hlutverki kvenna í sögunni;
- að athuga hvort hægt sé að víkka út lögin um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja svo þau nái til fyrirtækja með færri en 49 starfsmenn,
- að tryggja að lögreglukonur séu ekki áreittar kynferðislega í starfi sínu;
- að tryggja barnagæslu milli 9 mánaða og 2 ára;
- að tryggja nægilega fjármögnun til fæðingarorlofssjóðs og hækka hámarksgreiðslur úr honum;
- að mennta heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti konum sem sækja um fóstureyðingu og tryggja það að móttökur þeirra séu ekki til þess fallnar að letja konur til að fara í fóstureyðingu;
- að athuga reglugerðir opinberra menningarsjóða og leita leiða til að tryggja að opinberar styrkveitingar til menningarmála skiptist jafnt milli kynjanna;
- að rannsaka stöðu kvenna af erlendum uppruna;
- að tryggja fjármagn til Fjölmenningarseturs og auka aðgengi að þjónustu þess.
Tilmælin eru enn fleiri! Lesið skjalið í heild sinni á vefsíðu Mannréttindastofnunar Sameinuðu þjóðanna, hér.
Hægt er að lesa Kvennasáttmálann í íslenskri þýðingu á vefsíðu Mannréttindaskrifstofunnar. Skuggaskýrslu Mannréttindaskrifstofu og Kvenréttindafélagsins 2016 er að finna á vefsíðu Kvenréttindafélagsins, og stöðuskýrslu stjórnvalda um framkvæmd Kvennasáttmálans frá árinu 2014 er að finna á vefsíðu Mannréttindastofnunnar Sameinuðu þjóðanna.
Comments are closed.