Kveðja frá Kvenréttindafélagi Íslands til minningar um Sigríði Th Erlendsdóttur (1930 – 2022)
Sigríður Th. Erlendsdóttir vann ómetanlegt stórvirki fyrir Kvenréttindafélagið og kvennasögu á Íslandi þegar hún skrifaði bókina “Veröld sem ég vil“, sem kom út árið 1993 og er saga Kvenréttindafélags Íslands frá stofnun 1907 til 1992, sem og sögu jafnréttisbaráttunnar á 20. öld. Á kápu bókarinnar stendur: „Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í sögu þjóðarinnar þegar frelsisvindar blésu og sjálfstæðisbaráttan stóð sem hæst. Barátta fyrir réttindum kvenna var samofin sjálfstæðisbaráttunni og framsýnir menn, konur og karlar, sáu til þess að Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða til að samþykkja almennan kosningarétt kvenna.“ Í bókinni gerði Sigríður grein fyrir aðdraganda að stofnun félagsins og fjallar um kvenfélögin, sem störfuðu fyrir daga þess, uppruna Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda og fyrsta formanns félagsins, kvennaframboðin og baráttuna fyrir kosningarétti kvenna. Hún fjallaði ítarlega um starfsemi félagsins allt fram til ársins 1992, um þátt kvenna í mótun velferðarþjóðfélagsins, í verkalýðsbaráttu, málefnum mæðra og barna og skattamálum svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er lýst þátttöku félagsins í alþjóðlegu samstarfi. Er þessi bók enn í dag ein mikilvægasta heimild um kvennabaráttunnar hér á landi.
Sigríður Th. Erlendsdóttir fæddist hinn 16. mars árið 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR árið 1949 og hóf rannsóknir í kvennasögu upp úr 1970, þá rúmlega fertug, og lauk BA-prófi í sagnfræði árið 1976. Hún lauk kandídatsnámi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1981 með ítarlegri frumrannsókn á atvinnuþátttöku reykvískra kvenna á árunum 1890-1914. Árið 1982 varð hún fyrst til að bjóða upp á sérstök námskeið í kvennasögu í sagnfræði við HÍ þar sem hún var stundakennari þar til að hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Sigríður er brautryðjandi í rannsóknum á sögu kvenna og hefur með kennslu sinni og rannsóknum lagt grunn að kvennasögu sem fræðigrein hér á landi. Má með sanni segja að hún hafi kveikt áhuga nemenda sinna á sögu íslenskra kvenna og hvatt þá til rannsókna á því sviði. Sigríður sat einnig í fjölmörgum stjórnum og flutti fjölda fyrirlestra er varðaði sögu kvenna á Íslandi, meðal annars fyrir hönd Kvenréttindafélagsins.
Á vef Kvennasögusafnsins er ennfremur hægt að lesa erindi Sigríðar Th. Erlendsdóttur um ævi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, sem hún flutti á málþingi um Bríeti þann 29. september 2006 sem Kvennasögusafn Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum stóðu fyrir til að minnast þess að 150 ár voru liðin frá fæðingu Bríetar.
Árið 2001 kom út bókin Kvennaslóðir, greinasafn til heiðurs Sigríðar í tilefni af 70 ára afmæli hennar. Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni þess var hún spurð hvað nám á miðjum aldri, kennsla og fræðistörf hafi gefið henni í gegnum tíðina, við því svaraði hún: „Kannski sjálfstraust. Konur skortir gjarnan sjálfstraust, að minnsta kosti konur af minni kynslóð. Ég held að við getum ekkert gefið dætrum okkar betra en að reyna að efla sjálfstraust þeirra. Sjálfstraustið er mjög mikilvægt í allri kvennabaráttu. Ég hafði líka alltaf haft mikinn áhuga á hversdagsleikanum í sögunni. Allt fram til 1970 var sagan aðeins saga styrjalda, kónga og keisara, en eftir það fer söguritunin að breytast í sögu hvunndagsins líka. Konur fóru að velta fyrir sér hlutverki formæðra sinna í Íslandssögunni þar sem varla er á þær minnst. Ég vildi líka vita meira um sögu kvenna þar sem mér finnst ég eiga konum skuld að gjalda og er ég þar að vísa til formæðra minna.”
Árið 1997 varð Sigríður heiðursfélagi í Kvenréttindafélagi Íslands, enda á félagið og konur á Íslandi henni svo sannarlega skuld að gjalda fyrir framlag hennar til kvennasögu og kvenréttinda.
Kvenréttindafélag Íslands þakkar Sigríði fyrir samstarfið, þekkinguna og vináttuna og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur.
Sigríður Th. Erlendsdóttir á 113 ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins.
Heiðursfélagar Kvenréttindafélags Íslands. Á mynd: Sigríður Th. Erlendsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, Björg Einarsdóttir.
Sigríður Th situr þarna fremst fyrir miðju í hópi kvenskörunga sem mættu á 113 ára afmælishátíð Kvenréttindafélagsins.