Í tilefni af alþjóðlega sextán daga átakinu gegn kynbundnu ofbeldi skrifaði Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvenréttindafélagsins, grein í Fréttablaðið þar sem hún birti all svakalega tölfræði.

Það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem 87% lögregluþjóna eru karlar. Það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem á sama tíma og 248 mæta í Neyðarmóttöku vegna nauðgunar og 1086 leita aðstoðar hjá Stígamótum eru aðeins 189 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu, 88 málum vísað til ríkissaksóknara, 31 ákæra gefin út og 23 sakfellingardómar felldir. Og það er ógnarstjórn að búa í samfélagi þar sem 42% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla, þar sem 24% kvenna hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karla, þar sem 4% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla á undangengnum 12 mánuðum.

Margir spyrja sig eflaust: Hvar fengum við tölfræðina?

 

Um 87% lögregluþjóna eru karlar

logreglan_net000002

Þessi tala er fengin úr skýrslu Finnborgar Salome Steinþórsdóttur, „Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar“, sem hún vann fyrir Háskóla Íslands í samstarfi við Ríkislögreglustjóra og kom út í lok árs 2013.

Í skýrslunni veltir Finnborg fyrir sér af hverju svo fáar konur eru í lögreglunni, en þrátt fyrir að konur hafi verið 17-33% útskráðra nemenda frá Lögregluskóla ríkisins síðan 1999 voru þær einungis 12,6% lögreglumanna í febrúar 2013. Nær engar konur eru á efstu starfsstigum lögreglunnar.

Finnborg lagði nafnlausa spurningalista fyrir alla starfandi lögreglumenn og tók einnig viðtöl við sex lögreglukonur sem höfðu á einhverjum tímapunkti hætt störfum hjá lögreglunni.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að tæplega 18% lögreglumanna töldu sig þolendur eineltis í lögreglunni, þ.e. 24% kvenna og 17% karla. Gerendur eineltis eru oftast karlkyns yfirmenn eða karlkyns samstarfsmenn.

Tæplega 31% kvenna og 4% karla í lögreglunni töldu sig þolendur kynferðislegrar áreitni í lögreglunni. Gerendur kynferðislegu áreitninnar eru karlkyns samstarfsmenn og karlkyns yfirmenn.

Viðhorf til kvenna eru heldur neikvæð. Konur treysta sér og öðrum konum til að sinna öllum verkefnum lögreglunnar en karla gera það síður. Viðhorf yngstu lögreglumannanna eru íhaldsömust og gefur það til kynna að jafnrétti innan lögreglunnar mun ekki aukast sjálfkrafa í framtíðinni.

Hægt er að lesa skýrslu Finnborgar „Vinnumenning og kynjatengsl lögreglunnar“ hér.

 

248 mættu í Neyðarmóttöku vegna nauðgunar á árunum 2008 og 2009

Þessa tölu er að finna í litlu riti sem ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem hafa áhuga á jafnréttismálum.

Jafnréttisstofa gefur á fjögurra ára fresti út skýrslur þar sem ýmsar tölur í jafnréttismálum á Íslandi eru settar fram á myndrænan máta. Þessar skýrslur eru afar læsilegar (lítið er um texta og mikið er um myndir), en það háir henni þó að bera afspyrnu leiðinlegan titil: „Tölulegar upplýsingar: Hlutföll og fjöldi karla og kvenna á ýmsum sviðum samfélags“.

Í október 2013 birtist í nýjasta útgáfa þessarar tölfræðiskýrslu, og er þar að finna samantekt yfir fjölda þeirra sem leituðu á Neyðarmóttöku vegna nauðgana á árunum 1993-2012, kynjagreind.

Fjöldi karla og kvenna á Neyðarmóttöku vegna nauðgunar 1993-2012

„Tölulegar upplýsingar: Hlutföll og fjöldi karla og kvenna á ýmsum sviðum samfélags 2013“ er að finna hér.

 

1086 leituðu sér aðstoðar hjá Stígamótum á árunum 2008 og 2009

Ársskýrslur Stígamóta eru mikill fjársjóður fyrir baráttufólk um jafnrétti og vitnisburður um ljótan veruleika í íslensku samfélagi.

stigamot_logoÁ vefsíðu Stígamóta er hægt að lesa allar ársskýrslur síðan 2002 (sjá hér), og í þeim er hægt að finna ógrynni upplýsingar sem geta aðstoðað okkur að skilja birtingarmyndir kynbundis ofbeldis hér á landi.

Í greininni í Fréttablaðinu tók framkvæmdastýrar tölur úr ársskýrslum fyrir árin 2008 og 2009, en vil nú nota tækifærið að fletta aðeins í gegnum ársskýrsluna 2013.

Á árinu 2013 leituðu 706 einstaklingar til Stígamóta, þar 323 sem leituðu aðstoðar vegna eigin mála í fyrsta skipti. 78 aðstandendur leituðu til Stígamóta og þar af voru 35 með upplýsingar um mál sem ekki voru þekkt hjá Stígamótum fyrir. Heildarfjöldi ofbeldismanna árið 2013 var 597, bæði í nýjum málum og upplýsingum um mál frá aðstandendur.

Stígamót tvínónar ekki við að taka saman tölur frá upphafi starfsemi sinnar:

Í þau 24 ár sem liðin eru frá stofnun Stígamóta hafa 6.702 einstaklingar leitað aðstoðar hjá Stígamótum. Jafnframt er þess að geta að ofbeldismennirnir teljast vera 9.630 en eru væntanlega nokkuð færri þar sem einhverjir þeirra hafa beitt fleiri en einn einstakling ofbeldi.

Framkvæmdastýra vill nota tækifærið og benda einnig sérstaklega á ársskýrslur Kvennaathvarfsins sem gott er að lesa til hliðar við upplýsingar frá Stígamótum (hægt er að finna þær allar hér).

Hér er komuskrá til Kvennaathvarfsins 2006-2013, sem hægt er að finna í ársskýrslunni 2013.

komur í kvennaathvarfið 2006-2013

 

Á árunum 2008 – 2009 voru 189 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu, 88 málum var vísað til ríkissaksóknara, 31 ákæra var gefin út og 23 sakfellingardómar voru felldir

héraðsdómur

Þessar tölur eru fengnar úr skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, „Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð“, sem kom út árið 2013. Skýrslan var unnin við Eddu – öndvegissetur við Háskóla Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneytið.

Þessi skýrsla er algjör skyldulesning fyrir þá sem vilja sjá hvernig tekið er á nauðgunum og öðrum kynferðisbrotum í lagalega kerfinu.

Í skýrslunni voru rannsakaðar allar tilkynntar nauðganir sem bárust lögregluembættum landsins árin 2008 og 2009, alls 189 mál, og tekið saman hvað einkenndi málin og hvaða afgreiðslu þau hlutu í kerfinu.

meðferð kynferðisafbrotamála 2008-2009

Hvar og hvenær eiga nauðganir sér stað?

 • Í skýrslunni kemur m.a. fram að lítill munur var á fjölda tilkynntra nauðgana á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggð miðað við íbúafjölda og að flestar nauðgunartilkynningar berast lögreglunni um helgar, eða 63%.
 • Í 78% málanna var brotavettvangur innandyra, á heimili geranda, brotaþola eða þriðja aðila.

Gerendur

 • Í öllum tilvikum nema einu voru gerendur karlar eða drengir.
 • Flestir gerendur voru á aldrinum 18-29 ára, sá yngsti var 12 ára en sá elsti 68 ára.
 • Í 71% málanna voru gerendur íslenskir.
 • Erlendir gerendur voru 23% og flestir þeirra voru evrópskir, eða alls í 14% mála.
 • Í 6% mála kom ekki fram hvort gerendur væru íslenskir eða erlendir.

Brotaþolar

 • Nánast allir brotaþolar voru konur eða stúlkur, eða 98%, en í fjórum málum voru brotaþolar karlar eða drengir.
 • Alls voru 7% brotaþola konur af erlendu þjóðerni.
 • Helmingur brotaþola var 19 ára og yngri og 16% voru börn yngri en 15 ára. Yngsti brotaþoli var 3 ára stúlkubarn og sá elsti 61 árs gömul kona.

Tengsl gerenda og brotaþola

 • Í tæplega helmingi málanna þekktust gerandi og brotaþoli lítið eða ekkert, í 24% málanna höfðu þau kynnst fyrst innan 24 stunda áður en brotið átti sér stað, oft við skemmtanahald.
 • Stærsti einstaki hópur geranda voru vinir eða kunningjar brotaþola, eða í 37% málanna.

Áfengi, ólyfjan og klám

 • Áfengisneysla tengdist brotunum, í 62% tilvikum brotaþola og 40% tilvika hjá gerendum.
 • 5% brotaþola töldu sér hafa verið byrluð lyf, en aldrei hefur tekist að greina leifar af þvílíkum lyfjum við rannsóknir á Íslandi.
 • Greina mátti skýr áhrif kláms í 19% málanna.

Ofbeldi gerenda

 • Í 39% málanna beittu gerendur líkamlegu afli til að ná fram vilja sínu, með ofbeldi eða með hótunum og ógnunum með vopnum, með því að ýta, hrinda, toga, og með frelsissviptingu.
 • Í 27% málanna misnotuðu gerendur rænuleysi brotaþola.
 • Í 21% málanna einkenndist brotið af aðstöðumun aðila, t.d. miklum aldursmun eða þroskamun.

Viðbrögð brotaþola

 • Í 29% málanna neituðu eða mótmæltu þolendur, en frusu svo og grétu.
 • Í 21% málanna streittust brotaþolar á móti gerendum.
 • Í 16% tilvika sýndu brotaþolar virka líkamlega mótspyrnu.
 • Í 15% tilvika gátu brotaþolar enga mótspyrnu sýnt vegna ölvunar.

Skýrsluna er hægt að lesa hér: Tilkynntar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 og 2009: Um afbrotið nauðgun, sakborning, brotaþola og málsmeðferð“.

Hægt er að finna styttri samantekt á niðurstöðum á vef innanríkisráðuneytisins: „Einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009“.

 

42% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla, 24% kvenna hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu karla, 4% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi af hálfu karla á undangengnum 12 mánuðum

kynbundid_ofbeldiÞessar skelfilegu tölur komu úr skýrslu sem kom út í lok ársins 2010 og unnin var af Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd fyrir félags- og tryggingamálaráðuneytið. Skýrslan ber heitið „Rannsókn á ofbeldi gegn konum: Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi“ og höfundar hennar eru Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds.

Þessi skýrsla var unnin sem þáttur í aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn ofbeldi karla gegn konum, og í henni er sagt frá símkönnun þar sem tekið var 3000 manna slembiúrtak úr þjóðskrá úr hópi kvenna á aldrinum 18–80 ára. 2050 konur svöruðu og var svarhlutfallið 68%.

Rúmlega 42% kvennanna sögðust hafa verið beittar ofbeldi einhvern tíma frá 16 ára aldri, og tæp 4% sögðu ofbeldið hafa átt sér stað á undangengnum 12 mánuðum (haust 2007-2008). Sé þetta hlutfall umreiknað í fjöldatölur miðað við fjölda kvenna á Íslandi í desember 2008 jafngildir það að um 44-49 þúsund konur á Íslandi hafa verið beittar ofbeldi af einhverju tagi á lífsleiðinni.

Um 30% kvennanna sögðust hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi og rúmlega 24% kynferðislegu ofbeldi. Þessi hlutföll samsvara því að á bilinu 30-35 þúsund konur á Íslandi hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi og 24-29 þúsund konur hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi.

Rúmlega 13% kvennanna (12-16 þúsund allra kvenna á Íslandi) sögðust hafa verið nauðgað eða að gert hefði verið tilraun til að nauðga þeim.

„Rannsókn á ofbeldi gegn konum: Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi“ er að finna hér.

 

Líður ykkur illa?

Hérna er kisa klædd eins og hákarl á rúmbu að elta andarunga.

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=Of2HU3LGdbo&w=560&h=315]

Aðrar fréttir