Daglegir hádegisviðburðir hjá Skottunum hófust með hressilegum trúðatöktum síðastliðinn laugardag, en dagskráin er skipulögð sem upptaktur af kvennafrídeginum 25. október.

Hádegin í þessari viku einkennast af fjölbreyttri dagskrá þar sem söngkonurnar Þórunn Erna Clausen og Guðrún Árný og Soffía Karlsdætur leika af fingrum fram, ung skáldkona opnar bækur sínar og  Pörupiltar bjóða dömum upp á nýstárlegt dekur.

Allir viðburðirnir fara fram á sýningunni Með viljann að vopni sem nú stendur yfir í vestursal Kjarvalsstaða. Þeir hefjast kl. 12:30 og lýkur um hálftíma síðar.

Þriðjudag 12. okt. kl. 12:30

Hinar þjóðþekktu leik- og söngkonur Þórunn Erna Clausen og Guðrún Árný og Soffía Karlsdætur hafa stillt saman strengi sína og bjóða gestum upp á ljúfa og fallega hádegistóna.

Miðvikudag 13. okt. kl. 12:30

Guðrún Birna Jakobsdóttir er 23 ára Reykjavíkingur sem hefur í gegnum tíðina hripað niður hugmyndir um viðburði líðandi stundar. Á Kjarvalsstöðum opnar Guðrún hugmyndabankann sinn í ljóðadagskrá sem hún hefur sett saman.

Fimmtudag 14. okt. kl. 12:30
Pörupiltarnir
Nonni Bö, Dóri Maack og Pontus Thormodsson munu dekra við dömurnar á Kjarvalsstöðum.  Boðið verður upp á andlegt og líkamlegt dekur sem ekki hefur sést áður. Þetta er ekki í eina skiptið sem við munum sjá til Pörupilta en þeir félagar eru að leggja lokahönd á uppistand sem bráðlega fer á fjalirnar. Pörupilta skipa þær Alexía Björg Jóhannesdóttir, María Pálsdóttir og Sólveig Guðmundsdóttir.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburðina og allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Um dagskrána:


Listasafn Reykjavíkur og Skotturnar, regnhlífasamtök kvennahreyfingarinnar á Íslandi hafa ruglað saman reitum og skipulagt dagskrárveislu sem er upptaktur fyrir kvennafrídaginn 25. október.
Margar af fremstu listakonum landsins stíga á stokk í dagskrá sem fram fer á Kjarvalsstöðum daglega frá kl. 12:30 – 13:00. Á sunnudögum hefst dagskráin kl. 15.00.

Aðrar fréttir