Menningar- og minningarsjóður kvenna var stofnaður 27. september 1941 í minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur með því að börn hennar gáfu dánargjöf frá móður þeirra en hugmyndina að stofnun sjóðsins hafði Bríet átt. Hlutverk sjóðsins er fyrst og fremst að styrkja konur til náms, jafnt hér á landi sem erlendis með náms- og ferðastyrkjum. Ennfremur að veita konum styrk til ritstarfa eða verðlauna ritgerðir, einkum um þjóðfélagsmál er varða áhugamál kvenna. Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað einu sinni á ári.

Á fæðingardegi Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, þann 27. september 2015, veitti Menningar- og minningarsjóður kvenna sex konum styrk, samtals 600.000 kr.

Styrkþegar Menningar- og minningarsjóðs kvenna 2015: Vala Smáradóttir, Þóra Þorsteinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, Inga Valgerður Stefánsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir formaður MMK, Hulda dóttir formanns, og Halldóra Traustadóttir stjórnarkona MMK. Á myndina vantar Rannveigu Ágústu Guðjónsdóttur.

Styrkþegar Menningar- og minningarsjóðs kvenna 2015: Vala Smáradóttir, Þóra Þorsteinsdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir Guðrún Katrín Jóhannesdóttir, Inga Valgerður Stefánsdóttir, Hugrún R. Hjaltadóttir formaður MMK, Hulda dóttir formanns, og Halldóra Traustadóttir stjórnarkona MMK. Á myndina vantar Rannveigu Ágústu Guðjónsdóttur.

Vala Smáradóttir stundar nám í hagnýtri fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands. Hún hlaut 150.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Ljáðu mér rödd“.

Síðustu áratugi hafa hingað til lands flust fjöldi kvenna af ýmsum uppruna. Sögur þessara kvenna hafa því miður ekki fengið að heyrast nógu víða og þær fengið fá tækifæri til að miðla þeim. Heimildaþáttaröðin sem er lokaverkefni Völu mun gefa þeim tækifæri til að miðla sögu sinni og menningu.

Þóra Þorsteinsdóttir stundar nám við Kennaradeild Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Hún hlaut 150.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Rafrænt námsefni um kvennabaráttu og jafnrétti kynjanna fyrir grunnskóla“.

Markmið verkefnisins er að virkja grunnskólakennara til að fjalla markvisst um kvennabaráttu og jafnrétti kynjanna. Meginhluti meistaraverkefnisins er námsefni verkefni fyrir nemendur í grunnskóla sem æfir þau í að setja upp kynjagleraugun. Þóra hefur ákveðið að gefa Kvenréttindafélaginu námsefnið sem verður sett fram á rafrænan hátt þegar verkefninu er lokið.

Ásdís Ingólfsdóttir stundar nám  í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hlaut 75.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Af konum“.

Verkið er sagnasveigur sem byggður er á æviatriðum nokkurra íslenskra kvenna sem voru uppi á mismunandi tímum. Fjallað verður um tímamót í lífi hverrar og einnar og tengjast þessi tímamót með einhverjum hætti atburðum í sögu lands og þjóðar. Hver frásögn er sjálfstæð eining en saman mynda frásagnirnar samfellu sem spannar sögu Íslands frá um 1800 til dagsins í dag og lýsir þeim kjörum sem konur bjuggu við á hverjum tíma.

Guðrún Katrín Jóhannesdóttir stundar nám í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hún hlaut 75.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Viðbrögð við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum“.

Markmið verkefnisins er að afla þekkingar og skilnings á  viðbrögðum við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum í gegnum viðtöl við stúlkur sem hafa kært nauðgun, bæjarbúa og fagaðila auk greiningu orðræðu í fjölmiðlum. Reynt verður að varpa ljósi á hvaða félagsfræðilegu öfl búa að baki neikvæðum viðbrögðum fólks gagnvart stúlku sem leggur fram nauðgunarkæru hvaða áhrif slík viðbrögð hafa á stúlkurnar.

Inga Valgerður Stefánsdóttir stundar nám í lagadeild Háskóla Íslands. Hún hlaut 75.000 kr. styrk fyrir verkefnið „Kynjakvótar í stjórnum fyrirtækja“.

Í verkefni sínu rannsakar Inga Valgerður löggjöf sem mælir fyrir um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja hér á landi sem tók gildi árið 2013. Markmið ritgerðarinnar er að kanna útfærslu löggjafarinnar með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands og Evrópurétti. Auk þess að skoða almenna umfjöllun í aðdraganda lagasetningarinnar.

Rannveig Ágústa Guðjónsdóttir stundar nám í kynjafræði við Háskóla Íslands. Hún hlaut 75.000 kr. styrk fyrir verkefnið „„Ég hélt að þetta ætti bara að vera svona“: Reynsla brotaþola, sem hafa upplifað nauðgun í sambandi sem unglingar“.

Markmið verkefnisins er að fá innsýn í upplifanir og reynslu brotaþola af kynferðisofbeldi sem þeir upplifðu í sambandi sem unglingar. Skoðað verður hvernig brotaþolar tókust á við þá reynslu, hvort þættir í bakgrunni brotaþola áttu þátt í að gera þá berskjaldaðari eða styrkja þá fyrir reynslu þeirra í ofbeldissambandinu, á hvaða hátt sú reynsla mótaði viðmælendur. Í stærra samhengi er markmið og tilgangur rannsóknarinnar að skapa vitundavakningu í samfélaginu um nauðganir í samböndum unglinga.

Aðrar fréttir