Auglýst er eftir nemanda á háskólastigi til að vinna að samtímarannsókn um kynjaða orðræðu í kosningabaráttu til Alþingis sem eru haldnar 25. september 2021, í verkefni styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Nauðsynlegt er að nemandi hafi gott vald á íslensku.

Verkefnið felst í að fylgjast með kosningabaráttunni á sumar- og haustmánuðum, kynjagreina hana og greina hvaða áhrif kynjuð orðræða hefur á úrslit kosninganna, þá sérstaklega á hlutfall kvenna á þingi. 

Markmið verkefnisins er að greina orðræðu sem beitt er um frambjóðendur og af þeim í Alþingiskosningum 2021, í ljósvaka-, prent- og samfélagsmiðlum frá júní til september 2021 og greina hvort að greinarmunur sé á þeirri orðræðu eftir kyni frambjóðandans. Gerð verður viðamikil rannsókn á ljósvaka-, prent- og samfélagsmiðlum frá júní til september 2021 Niðurstöður þessarar rannsóknar skulu settar í fræðilegt samhengi, bæði við erlendar og íslenskar fræðigreinar um kynjaða orðræðu í kosningabaráttu sem og sögulegt samhengi við stöðu kvenna í íslenskum stjórnmálum, sérstaklega á Alþingi.

Hugsað er að verkefnið sé í fullu starfi í þrjá mánuði yfir sumartímann (styrkt af Nýsköpunarsjóði), en verkefnaráðið hlutastarf í september og október meðan nemandi leggur lokahönd á skýrsluna.

Vinsamlegast sendið umsókn um starfið, náms- og ferilskrá og staðfestingu á skólavist á postur@kvenrettindafelag.is fyrir kl. 23:59 sunnudaginn 16. maí næstkomandi, merktar sem “Sumarstarf 2021, umsókn”. 

Nánari lýsing á rannsókninni:

  • Samantekt á alþjóðlegum fræðigreinum og fræðikenningum um stöðu kvenna í stjórnmálum, með sérstakri áherslu á umræðu um konur í kosningabaráttu
  • Samantekt á íslenskum fræðigreinum og fræðikenningum um stöðu kvenna í stjórnmálum, með sérstakri áherslu á umræðu um konur í kosningabaráttu, með aukaáherslu á fjölmiðlaumfjöllun um konur á Alþingi frá árinu 1920
  • Vöktun á kosningaumræðu, greinum, viðtölum og auglýsingum, í prentmiðlum júní til september 2021
  • Vöktun á kosningaumræðu, greinum, viðtölum og auglýsingum, í ljósvakamiðlum júní til september 2021
  • Vöktun á kosningaumræðu, greinum, viðtölum og auglýsingum, í samfélagsmiðlum júní til september 2021
  • Skrif á skýrslu með samantekt á alþjóðlegum og íslenskum fræðigreinum um stöðu kvenna í stjórnmálum, þá sérstaklega í kosningabaráttu, og rannsókn á kynjaðri orðræðu í kosningabaráttu til Alþingis 2021