Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélags Íslands, var í dag sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu, riddarakrossi fyrir framlag sitt til jafnréttis, málefna innflytjenda og atvinnulífsins.

Tatjana var kjörin formaður Kvenréttindafélagsins í vor. Hún er fyrsti formaður félagsins af erlendum uppruna, en félagið var stofnað af Bríeti Bjarnhéðinsdóttur árið 1907.

Tatjana Latinovic hefur setið í stjórn Kvenréttindafélagsins síðan 2015 og gegnt embætti varaformanns síðan þá. Hún hefur verið baráttukona fyrir kvenréttindum og réttindum innflytjenda síðan hún flutti til Íslands árið 1994. Hún er einn stofnenda W.O.M.E.N. in Iceland – Samtaka kvenna af erlendum uppruna og sat í stjórn frá stofnári 2003 til 2012, þar af sem formaður 2004–2008. Hún sat einnig í stjórn Kvennaathvarfsins, frá 2004 til 2012.

Tatjana er einnig formaður Innflytjendaráðs, situr í Jafnréttisráði fyrir hönd Kvenréttindafélagsins og starfar sem deildarstjóri hjá Össuri.

Til hamingju, Tatjana!

Aðrar fréttir