1975-4_timinn-copyÍ dag, 24. október, er íslenski kvennafrídagurinn.

38 ár eru liðin síðan íslenskar konur lögðu niður vinnu og gengu fylktu liði niður Laugaveginn til að berjast fyrir betri stöðu í íslensku samfélagi. Talið er að um 30.000 konur hafi verið á Lækjartorgi þennan haustdag.

Kvennafrídagurinn var skipulagður af konum út um allt land, af öllum þjóðfélagshópum og af öllum vængjum stjórnmálanna. Kvennafríið var sýnilegasta framlag Íslendinga til Kvennaárs Sameinuðu þjóðanna, en SÞ hafði tilskipað að 1975 skyldi vera alþjóðlega ár konunnar.

Sameinuðu þjóðirnar boðuðu til fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunnar um málefni kvenna árið 1975 í Mexico City, og alþjóðlegar stofnanir urðu til þetta ár til að berjast fyrir réttindum kvenna, sú stærsta eflaust UNWomen, þá UNIFEM.

Íslenskar konur endurtóku leikinn árið 2005 þegar 60.000 konur mættu í miðborg Reykjavíkur og árið 2010, þegar 50.000 konur mættu í miklu óveðri til að ganga fyrir réttindum kvenna.

Í tilefni dagsins minnum við á útvarpsþáttinn Ólgusjór kvenréttindabaráttunnar sem Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir og Helga Birgisdóttir unnu sumarið 2012 í tilefni af útgáfu ársrits Kvenréttindafélagsins, 19. júní. Í þættinum er stiklað á stóru yfir þrjár bylgjur feminismans og sögu hugtaksins feminismans. Þáttarstjórnendur örkuðu niður í Kringlu og spurðu gesti og gangandi hvort þeir gætu skilgreint hugtakið feminismi, og að lokum var spurningunni varpað fram hvort að ný bylgja kvenréttindabaráttu væri að hefja sig á loft.

Hægt er að hlýða á þáttinn Ólgusjór kvenréttindabaráttunnar á vef Ríkisútvarpsins, með því að smella hér!