Kvenréttindafélag Íslands fagnar því að stjórnvöld hafa frestað breytingum á neðri mörkum aldursviðmiða vegna reglubundinna skimana fyrir brjóstakrabbameini. Leggst félagið gegn þeim áformum að hækka aldur kvenna sem boðaðar eru í reglubundna skimun fyrir brjóstakrabbameini úr 40 í 50 ár og hvetur stjórnvöld til falla algjörlega frá þeim áætlunum.
Á níunda og tíunda áratugnum barðist kvennahreyfingin á Vesturlöndum þrotlaust fyrir betri skimun og meðferð við brjóstakrabbameini, og það er ekki síst þessum konum að þakka hve langt við erum komin í baráttunni gegn þessu meini. Allar breytingar sem gerðar eru á skipulagi forvarnarstarfs gegn brjóstakrabbameini þurfa að vera unnar í nánu samstarfi við konur og samtök kvenna. Nú er ekki tími til að slaka á í baráttunni.
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein meðal kvenna á Íslandi og enn greinast rúmlega 200 konur á hverju ári hér á landi með sjúkdóminn og um 40–50 látast af völdum hans. Um 13% þeirra sem greinast með brjóstakrabbamein eru á aldrinum 40–49 ára, en á árunum 2015-2019 voru að meðaltali 30 konur á þeim aldri greindar með sjúkdóminn. Reglubundin skimun er grundvallartæki í baráttunni gegn brjóstakrabbameini en hún eykur lífs- og batalíkur. Krabbameinsfélag Íslands hefur bent á að samkvæmt evrópskum leiðbeiningum er mælt með að skimun kvenna hefjist við 45 ára aldur, og því er óskiljanlegt að til standi að breyta reglugerð hér á landi svo skimun hefjist seinna.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að aldur kvenna sem boðaðar eru í reglubundna skimun á brjóstakrabbameini sé áfram 40 ár, og enn fremur að stjórnvöld leggi áherslu á víðari forvarnaraðgerðir, þar á meðal með því að skýra verklag og efla eftirlit með fjölskyldum þar sem genafrávik sem valda brjóstakrabbameini (hvort sem er BRCA eða önnur) ganga í erfðir sem og að bjóða upp á fræðslu um brjóstakrabbamein í grunn- og menntaskólum þannig að kunnátta til sjálfskoðunar á brjóstum verði almenn og sjálfsögð.
Við höfum öll grundvallarrétt til lífs og líkama og konur hafa skýlausan ákvörðunarrétt yfir eigin líkama. Konur á Íslandi hafa greint frá þeirri reynslu að erfitt hafi reynst að fá leyfi læknis til að fara í brjóstaskoðun fyrir fertugt. Það er grundvallarkrafa að konur fái að bera ábyrgð á eigin líkama og að læknar taki áhyggjur kvenna um eigin heilsu alvarlega.