Kvenréttindafélag Íslands hefur sent bréf til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að grípa til aðgerða í kjölfar ákvörðunar Tyrklands að segja sig frá Istanbúlsamningnum svokallaða, samningi Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi.
Istanbúlsamningurinn er fyrsti alþjóðlegi sáttmálinn sem tekur heildstætt á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi og er mikilvægt verkfæri á alþjóðavettvangi í jafnréttisbaráttunni. Sú ákvörðun Tyrklands að segja sig úr samningnum er því mikið bakslag og veikir alþjóðlegt starf gegn ofbeldi.
Kvenréttindafélag Íslands hvetur íslensk stjórnvöld til að grípa til eftirfarandi aðgerða:
- Að hvetja tyrknesk stjórnvöld til að draga til baka ákvörðun sína um að segja sig frá Istanbúlsamningnum
- Að hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins og ríki sem undirritað hafa Istanbúlsamninginn að beita öllum lagalegum og pólitískum ráðum til að koma í veg fyrir að Tyrkland geti sagt sig frá Istanbúlsamningnum.
- Að hvetja öll aðildarríki Evrópuráðsins til að fullgilda Istanbúlsamninginn tafarlaust og skilyrðislaust.
Tilkynningar um heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum hafa aukist á tímum alheimsfaraldursins COVID-19, og er Ísland þar engin undantekning. Allar konur og stúlkur eiga það skilið að lifa lífi sínu frjálsar frá ofbeldi; það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax!