Efni: Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (refsing við tálmun eða takmörkun á umgengni). Þingskjal 559  —  426. mál.


Stjórn Kvenréttindafélags Íslands telur að stíga þurfi varlega til jarðar þegar kemur að því að beita refsingum við tálmun eða takmörkun á umgengni.

Í frumvarpinu er nefnt að samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eigi börn rétt á að þekkja og umgangast báða foreldra sína. Þetta tekur félagið heils hugar undir. Það væri því skerðing á réttindum barna, samkvæmt sáttmála SÞ, að fjarlægja forræðisforeldrið af heimili og setja í fangelsi.

Samkvæmt 46. gr. barnalaga þá hvílir skylda á herðum beggja foreldra að tryggja umgengni eða samvistir við báða foreldra. Í þessu frumvarpi er einungis krafist refsingar yfir því foreldri sem takmarkar umgengni, en ekki foreldri sem sinnir ekki sínum foreldraskyldum. Þyki flutningsmönnum barnasáttmáli SÞ og réttindi barna til beggja foreldra eins mikilvægur og kemur fram í þessu frumvarpi, skyldi ætla að foreldrar sem sinna ekki foreldraskyldum ættu einnig að falla hérna undir. Þetta yrði í raun afar flókið í framkvæmd, og kannski ómögulegt. Því telur Kvenréttindafélagið að ekki ætti að lögfesta þessar breytingar.

Kvenréttindafélagið telur að þær heimildir sem sýslumaður hefur nú þegar, það er 48. gr. barnalaga um dagsektir, ættu að duga til þess að tryggja þennan mikilvæga rétt barna. Tekið er fram í frumvarpinu að ákvörðunum um dagsektir sé sjaldan fylgt eftir. Það væri vænlegra að byrja á því að nýta þau lög sem nú þegar eru til staðar og tryggja fjármagn til framkvæmdar þeirra, áður en svo stórvægilegar breytingar yrðu gerðar eins og hér er lagt til. Þó er vert að nefna að engar slíkar heimildir eru í barnalögum þegar kemur að foreldrum sem ekki sinna foreldraskyldum sínum.

Við tökum því undir svar dómsmálaráðherra að telja verði að nú þegar séu til staðar í lögum ákveðin úrræði sem hægt er að beita þegar annað foreldrið kemur í veg fyrir umgengni foreldris og barns.

Einnig gerir Kvenréttindafélagið athugasemdir við vinnslu frumvarpsins. Þar vantar alveg tilvísanir í rannsóknir og tölfræði um algengi tálmunar og takmörkunar á umgengni. Slíkar rannsóknir verða að liggja til grundvallar þegar leggja á til breytingar á lögum sem leiða til jafn þungra refsinga og hér er lagt til.

29. maí 2017
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Aðrar fréttir