Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun um Jafnréttissjóð Íslands, nr. 13/144. Þingskjal 959, 570. mál, 149. löggjafarþing.

19. mars 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands styður þingsályktunartillögu sem nú liggur fyrir Alþingi, að umsýsla Jafnréttissjóðs verði hjá færð til Rannís, Rannsóknamiðstöðvar Íslands.

Jafnréttissjóður sem stofnaður var 2015 til að minnast þess að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt hefur reynst rannóknum á og starfi í þágu kynjajafnréttis ómetanlegur síðustu árin. Mikilvægt er að umsýsla sjóðsins sé í höndum aðila sem hafa mikla reynslu af umsýslu styrktarsjóða, og erum við því sammála því að þessi umsýsla sé færð í hendur Rannís.

Kvenréttindafélag Íslands vill þó koma á framfæri mótmælum yfir því að nýjum verkefnum sé bætt í þennan sjóð. Í breytingartillögunni sem nú liggur fyrir Alþingi er lagt til að bætt verði fjórum nýjum flokkum verkefna sem Jafnréttissjóður styrkir og snúa þessi verkefni öll að kynferðislegri áreitni og ofbeldi. Kvenréttindafélagið setur sig að sjálfsögðu ekki á móti því að verkefni sem tengjast ofbeldi og áreitni séu styrkt. Félagið vill sjá þessi málefni veglega styrkt, og leggur til að stofnaður verður sérstakur sjóður til að styrkja verkefni gegn ofbeldi og áreitni, sjóður sem starfræktur verður til frambúðar.

Kvenréttindafélag Íslands leggur ennfremur til að Jafnréttissjóður verði starfræktur til frambúðar. Kynjajafnrétti er undirstaða samfélags okkar og sjálfbærrar framtíðar og stjórnvöldum ber að styrkja verkefni í þágu jafnréttis. Hvetjum við Alþingi til að tryggja að Jafnréttissjóður verði ekki lagður niður 2020 heldur haldi áfram að styrkja jafnréttisstarf á Íslandi.