Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um almenn hegningarlög (afnám banns við klámi), 153. löggjafarþing 2022–2023. Þingskjal 33 — 33. mál. 

 

Hallveigarstaðir, Reykjavík
6.
desember 2022

 

Kvenréttindafélagi Íslands hefur borist til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (afnám banns við klámi). Með þessu frumvarpi er lagt til að felld verði út refsiheimild 210. gr. almennra hegningarlaga vegna birtingar kláms á prenti, innflutnings þess í útbreiðsluskyni, sölu, útbýtingar eða annars konar dreifingar þess. 

Kvenréttindafélag Íslands er ósammála því að öll refsiheimild er tengist klámi verði afnumin og hvetur stjórnvöld því til þess að hafna þessu frumvarpi í heild sinni. Rannsóknir hafa sýnt fram á hvernig kynferðisleg áreitni og misnotkun byggð á klámi getur tengst vændi og mansali. Rannsókn Farley o.fl. (2003) sem gerð var í 9 löndum sýndi að um 95% brotaþola vændis upplifðu kynferðislega áreitni í vændinu. Niðurstöðurnar sýndu einnig að 47% brotaþola vændis greindu frá vanlíðan yfir því að einhverjir reyndu að fá þau til að gera hluti sem gerðir eru í klámi og 49% nefndu að einhverjir hefðu framleitt klámefni af þeim í vændinu (Farley o.fl., 2003). Þá kom einnig fram í rannsókn Stígamóta frá 2022 að helmingur ofbeldismanna sem hafði milligöngu um vændi beitti brotaþolann einnig nauðgun og rúmlega 20% beittu þau kynferðislegri áreitni eða einhverskonar misnotkun sem tengdist klámi. 

Áður en farið er í breytingar á lögum um bann við klámi þarf að framkvæma rannsóknir og fara í greiningarvinnu til þess að tryggt sé öryggi bæði þeirra sem verða þolendur innan klámiðnaðarins og þeirra sem verða fyrir ofbeldi tengdu klámáhorfi. Stígamót skilgreina afleiðingar kynferðisofbeldis sem tengist klámi svipuðum og afleiðingum annars kynferðisofbeldis; skömm, sektarkennd, þunglyndi, kvíði og brotin sjálfsmynd. Þá má einnig minnast á að meðalaldur íslenskra stráka þegar þeir horfa á klám í fyrsta skipti eru 11 ár og rannsókn ríkislögreglustjóra sem sýnir að íslenskir unglingsstrákar horfa mest á klám í samanburði við jafnaldra þeirra í Evrópu, og sjáum við stafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum aukast í samræmi við það. Tölfræði Stígamóta sýnir að gerendur kynferðisofbeldis eru fyrst og fremst ungir menn. Ennfremur endurspegla frásagnir brotaþola áþreifanlega áhrif kláms. Kynferðisofbeldi er ekki náttúrulögmál heldur lærð hegðun og rannsóknir sýna að þar geti klámáhorf spilað stórt hlutverk og haft mikil áhrif, t.a.m. á viðhorf til kynlífs, upplifunar á kynlífi, kynverund áhorfandans og viðhorfs til kvenna. 

Kvenréttindafélag Íslands er sammála því að uppfæra þurfi löggjöfina, sérstaklega með tilliti til þeirra sem útbúa og dreifa efni af sjálfum sér, eins og t.d. á OnlyFans eins og frumvarpið minnist á. Þá væri hægt að fara sömu leið og löggjöfin sér vændi; það er að ólöglegt sé að dreifa, kaupa eða taka upp efni af líkama annarra, en að það sé ekki refsivert að deila efni af sjálfum sér. 

Kvenréttindafélag Íslands ítrekar einnig að nauðsynlegt sé að styrkja lögin gegn barnaníðsefni með því að flytja ákvæði þess efnis svo að falli inn í kafla hegningarlaganna sem tekur á ofbeldi gegn börnum. Sem stendur eru ákvæði um barnaníð sett sem undir ákvæði greinar 210 sem kveður á um bann við framleiðslu, innflutningi, birtingu og dreifingu á klámi. Ákvæði myndefnis sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt teljum við ekki eiga heima undir þeirri grein, heldur frekar í þeim kafla hegningarlaganna sem tekur á kynferðisbrotum gegn börnum, greinum 200–204.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur stjórnvöld til þess að hafna þessu frumvarpi og setja fjármagn bæði í rannsóknir og greiningarvinnu á klámi, sem og til þess að styðja við þolendur klámiðnaðarins. 

Aðrar fréttir