Kvenréttindafélag Íslands hefur sent frá sér eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir, þingskjal 595, 435. mál, 149. löggjafarþing.

15. janúar 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands styður þetta frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir sem tryggir einstaklingum sjálfsforræði til að taka ákvörðun um ófrjósemisaðgerð og kveður á um að ófrjósemisaðgerð sé heimil að ósk einstaklings sem náð hefur 18 ára aldri.

Félagið hefur þó efasemdir um ákvæði í frumvarpinu sem segir ófrjósemisaðgerðir á einstaklingum sem eru ólögráða fyrir æsku sakir heimilar þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins. Lög um ófrjósemisaðgerðir þurfa að tryggja sjálfsákvörðunarrétt fólks, barna og fullorðinna, yfir eigin líkama. Ófrjósemisaðgerðir sem framkvæmdar eru án samþykkis eða vitundar þess sem um ræðir, hvort heldur sem einstaklingurinn er barn eða fullorðinn, eru mannréttindabrot. Tryggja þarf að fólk, börn og fullorðnir, sem fari í ófrjósemisaðgerð skilji rétt sinn, aðgerðina, ferlið og afleiðingarnar, séu samþykk aðgerðinni og að réttur þeirra sé virtur í hvívetna og ekki hunsaður til hagsmuna annarra.

Frumvarp þetta er annars heillaspor í þá átt að tryggja mannréttindi okkar allra og sjálfsforræði yfir eigin líkama, sérstaklega fatlaðs fólks. Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að frumvarpið verði samþykkt.

Aðrar fréttir