Efni: Umsögn Kvenréttindafélags Íslands um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), þingskjal 896, 543. mál, 149. löggjafarþing.

19. mars 2019
Hallveigarstöðum, Reykjavík

Kvenréttindafélag Íslands leggur til að frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um þrengingu ákvæðis um hatursorðræðu nái ekki fram að ganga. Telur félagið frumvarpið vera óheillaspor, sem mun ekki stuðla að rýmkun tjáningarfrelsis, heldur þvert á móti að skerðingu þess í íslensku samfélagi.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið sé afrakstur starfs sem ætlað var að “leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi”. Kvenréttindafélagið er í sammála því að tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi sé styrkt, enda sé þetta frelsi grundvöllur lýðræðis. En félagið telur þó að sú þrenging hatursorðræðuákvæðis sem hér er lögð fram eigi eftir að skerða tjáningar- og málfrelsis stórs hluta íslensks samfélags, nánar tiltekið kvenna.

Stafrænt ofbeldi, áreitni á veraldarvefnum er kynjað vandamál. Rannsóknir sýna að konur verða frekar fyrir stafrænt ofbeldi, þ.á.m. áreitni og hatursorðræðu, heldur en karlar. Í rannsókn Evrópuráðsins kemur fram að ein af hverjum tíu konum hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða verið hrellt á nýjum tæknimiðlum (Zero Tolerance of Violence Against Women, 2016). Rannsókn sem Evrópustofnun grundvallarmannréttinda lét gera sýndi að 4% af 42.000 evrópskum konum sem rætt var við höfðu orðið fyrir stafrænni áreitni á þeim tólf mánuðum áður en rannsóknin var framkvæmd, og 11% sögðust hafa orðið fyrir stafrænni áreitni í formi tölvupósta, sms skilaboða eða skilaboða á samfélagsmiðlum (Violence Against Women; an EU-Wide Survey, 2014).

Kvenhatur, áreitni og hatursorðræða á veraldarvefnum fælir konur frá þátttöku í lýðræðislegri umræðu.  Í nýlegri bandarískri rannsókn á netnotkun kvenna, kom fram að 27% þátttakenda ritskoða sjálfar sig þegar þær birta færslur á netinu, af hræðslu við áreitni á veraldarvefnum, og ef aðeins er litið til kvenna á aldrinum 15 til 29 ára að aldri, þá ritskoða 41% ræðu sína á veraldarvefnum. Sama rannsókn sýndi fram á að 26% þeirra sem höfðu orðið fyrir stafrænu ofbeldi eða áreitni breyttu hegðun sinni á veraldarvefnum, hættu t.d. notkun á samfélagsmiðlum, hættu að nota snjallsíma, og sumar hættu jafnvel alveg að nota internetið (Online Harassment, Digital Abuse, and Cy­berstalking in America, 2016).

Einnig hefur borið á því að hatursorðræða og stafrænt ofbeldi hefur verið beitt markvisst til að fæla femínista og kvenréttindakonur frá internetinu, og er þar hægt að nefna t.d. breska femínistann Carolina Criado-­Perez sem hóf herferð til að bæta mynd af Jane Austen á breska peningaseðla og bandaríska femínistann Anitu Zarkeesian sem gerði heimildaþætti um staðalmyndir kynjanna í tölvuleikjum.

Í greinargerð með þessu frumvarpi kemur fram að það hafi komið til athugunar við endurskoðun ákvæðisins hvort að ástæða væri til að bæta við þá hópa sem þar er vísað til orðið kynferði, það er hvort að íslensk stjórnvöld myndu skilgreina kvenhatur sem hatursorðræðu, en að niðurstaðan hafi verið sú “að hreyfa ekki við ákvæðinu að þessu leyti”. Kvenréttindafélag Íslands spyr þá, af hverju ekki? Er kvenhatur minna ámælisvert en hatur gegn öðrum hópum?

Líkt og greinargerðin bendir á, ef orðinu kynferði er bætt inn í ákvæðið, þá myndi refsivernd ákvæðisins taka til hóps sem telur liðlega helming mannkyns. Breyting sem þessi getur aðeins verið af hinu góða, að bæta inn einu orði sem veitir helming mannkynsins vernd í íslensku lagaumhverfi. Yrðum við fyrst norrænna þjóða til að tryggja þessi sjálfsögðu mannréttindi kvenna, og fyrirmynd eins og svo oft áður í jafnréttismálum.

Kvenréttindafélag Íslands hvetur til þess að frumvarpið í núverandi mynd verði fellt, og í staðinn verði skrifað nýtt og öflugt frumvarp þar sem ákvæði um hatursorðræðu í hegningarlögunum verði víkkað og orðinu kynferði verði bætt inn í ákvæðið, til að auka vernd kvenna, helming mannkynsins.

Heimildir:

Online Harassment, Digital Abuse, and Cyberstalking in America. (2016). Data & Society Research Institute og CiPHR – Center for Innovative Public Health Research. Sótt frá https://datasociety.net/output/online-harassment-digital-abuse-cyberstalk

Violence against women: an EU-wide survey. Main results report. (2014). European Union Agency for Fundamen­tal Rights. Sótt frá http://fra.europa.eu/en/publication/2014/violence-against-women-eu-wide-survey-main-results-report

Zero tolerance of violence against women. (2016).­ European Commission. Sótt frá http://ec.europa.eu/justice/gender-equality/gender-violence/index_en.htm

Aðrar fréttir